140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[18:33]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að sá taugatitringur sem kom fram hjá hv. þingmanni í upphafi andsvars hennar lýsi mjög vel þeirri stöðu sem ríkisstjórnin er í þar sem menn koma fram með skætingi, eru að (Gripið fram í.) — ja, með skætingi hér áðan, ráðast á menn fremur en málefni.

En þegar kemur að spurningum hv. þingmanns sem snúa að þjóðaratkvæðagreiðslum þá held ég að hv. þingmaður hafi ekki hlýtt nægilega vel á ræðu mína því að ég hef verið mjög fylgjandi því að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla um stór mál.

Ég vil í því samhengi nefna að ég studdi þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort sækja ætti um aðild að Evrópusambandinu. Það gerði meiri hluti þingflokks Vinstri grænna ekki á sínum tíma. Forustumenn í þingflokki Vinstri grænna og í Vinstri grænum lögðu mjög hart að þeim sem hér stendur að vera ekki á tillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu um Evrópusambandsmálið á sínum tíma. Það sama gilti um báðar Icesave-atkvæðagreiðslurnar þar sem voru lagðar fram breytingartillögur í þingsal um þjóðaratkvæðagreiðslur um Icesave-samningana. Sá sem hér stendur studdi þær tillögur báðar tvær en það gerði hv. þingmaður ekki.

Það sem ég kom að í ræðu minni áðan sneri að því að úr því að fara ætti fram með skoðanakönnun, eða þjóðaratkvæðagreiðslu, á vilja þjóðarinnar til ákveðinna þátta sem snerta stjórnarskrána, ekki stjórnarskrána í heild, væri mjög eðlilegt að taka inn í það fleiri spurningar er varða til dæmis fullveldisafsal og fleiri mál er varða það hvort þjóðin vilji yfir höfuð breyta stjórnarskránni eða fækka þingmönnum, það eru fleiri breytingartillögur hér, eða um Evrópusambandsumsóknina. Af hverju mega þessar spurningar ekki koma inn í þennan spurningavagn, því það er spurningavagn þegar það eru fleiri en ein spurning, frú forseti. Það voru fleiri spurningar saman og um svona óskyld atriði sem þetta snerta. (Forseti hringir.) Ég vil kalla eftir því af hverju þessar spurningar og breytingartillögur mega ekki fara hér í gegn (Forseti hringir.) og urðu ekki að tillögum meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.