140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[18:36]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það hefur margoft komið fram af hverju þessar spurningar urðu fyrir valinu og nægir að minna á niðurstöðu þjóðfundar. Ég hvet hv. þingmann til að kynna sér gögn þess máls sem við ræðum, sem eru meðal annars þjóðfundurinn, niðurstaða hans. Hvað kom út úr því? Það voru náttúruauðlindirnar í þjóðareign, það var þjóðaratkvæði um stór mál, það var persónukjör og það var jöfnun atkvæðisréttar. Við höfum farið yfir það í umræðum af hverju þessar spurningar, þessi álitaefni urðu fyrir valinu. Mér þykir nú vont að þurfa að nýta andsvarstíma minn í að svara spurningu hv. þingmanns en hann beindi henni til mín.

Orðafar hans hins vegar og ræða er mér algjörlega óskiljanleg í ljósi þess að við vorum einu sinni að berjast fyrir sama málstað, meðal annars um náttúruauðlindir (Forseti hringir.) í þjóðareign. Ég spurði hv. þingmann hvenær hann hefði skipt um skoðun á því og hann svaraði því ekki. Ég get svarað því. Það var þegar hann gekk í Framsóknarflokkinn.