140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[18:37]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Það hafa ekki verið deilur um það að náttúruauðlindir verði í þjóðareign. Hefur sá sem hér stendur lýst andstöðu við það? Nei. Það sem ég benti hins vegar á í máli mínu var af hverju fleiri spurningar voru ekki teknar inn í þennan spurningavagn. Af hverju má ekki spyrja fleiri spurninga en þarna er gert? (ÁI: Þingið ræður því.) Ég hef nefnilega verið talsmaður þess að fram fari beint lýðræði en það hefur hins vegar verið hjá þingflokki Vinstri grænna fremur verið í orði en á borði. (Gripið fram í: Rangt.) Það hefur til að mynda komið fram í stórum málum sem hafa verið hér á kjörtímabilinu, tvisvar sinnum í Icesave-málinu, hv. þingmaður, og einu sinni í Evrópusambandsmálinu þar sem Vinstri grænir sneru sér í heilan hring frá kjördegi þangað til daginn eftir, þar sem var gefið eftir í því grundvallarmáli, Icesave-málinu og ESB-málinu. Þetta veit hv. þingmaður og getur því ekki komið hér og haldið (Forseti hringir.) því fram að menn séu á móti beinu lýðræði, því að ríkisstjórnin (Forseti hringir.) sjálf er bara fylgjandi beinu lýðræði þegar það hentar hennar eigin málstað (Gripið fram í.) og það er mjög dapurleg staðreynd. (Gripið fram í.)