140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[18:42]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég tek undir með hv. þingmönnum Gunnari Braga Sveinssyni og Ragnheiði Elínu Árnadóttur. Þegar hv. þm. Álfheiður Ingadóttir kom í andsvar við þann sem hér stendur er það mjög sérstakt þegar andsvarinu er beint til aðila úti í sal fremur en þess sem á að beina andsvari til.

Ég heyrði ummæli hv. þm. Tryggva Þórs Herbertssonar og þar var talað um vangetu en ekki vangefni. Frú forseti. Það er að verða svolítið hvimleitt þegar ríkisstjórnarliðar, ráðherrar og þingmenn ríkisstjórnarinnar eru að verða svo taugatrekktir og hafa á köflum svo litla stjórn á sér að farnar eru að ganga svona ásakanir hér um salinn. Þetta er ekki til þess fallið að bæta vinnubrögð á þinginu og ég vil taka undir það að því sé beint til frú forseta að málið verði almennt tekið upp, ekki bara þetta einstaka mál heldur almennt verði það tekið upp og athugasemdum beint til þeirra þingmanna sem við á.