140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[18:43]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Hæstv. forseti. Við ræðum tillögu til þingsályktunar um ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu, ferli sem hefur vægast sagt verið sérkennilegt í þinginu. Ég ætla að nota hluta af upphafsmáli mínu til að fara aðeins yfir það.

Í tillögunni sjálfri sem liggur fyrir var í tveimur liðum lagt til að farið yrði í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu og spurningar lagðar fyrir þjóðina um tiltekin álitaefni. Ein spurningin var hvort tillaga stjórnlagaráðs yrði lögð fram sem frumvarp að nýrri stjórnarskrá eftir að hún hefði verið yfirfarin með tilliti til laga og alþjóðasamninga. Í seinni liðnum voru fimm spurningar sem hljómuðu svona:

„Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá Íslands verði:

1. náttúruauðlindir lýstar þjóðareign?

2. ákvæði um þjóðkirkju Íslendinga óbreytt frá því sem nú er?

3. persónukjör í kosningum til Alþingis heimilað í meira mæli en nú er?

4. ákvæði um að atkvæði kjósenda alls staðar að af landinu vegi jafnt ?

5. ákvæði um að tiltekið hlutfall kosningarbærra manna geti krafist þess að mál fari í þjóðaratkvæðagreiðslu?

Ef já, hve hátt finnst þér að þetta hlutfall ætti að vera?“

Svo voru gefnir þrír valkostir. Ég vitnaði nú til þessa án þess að biðja um leyfi forseta en vonast til að mér verði það fyrirgefið.

Það er augljóst mál öllum sem hlustuðu á mál mitt að þessar spurningar vöktu mun fleiri spurningar hjá þeim sem staðið hafa frammi fyrir þeim. Eftir að landskjörstjórn hafði yfirfarið þessar spurningar var í nefndaráliti meiri hlutans lagt til að þeim yrði öllum breytt.

Í fyrstu spurningunni yrði þriðji möguleikinn tekinn út, þar sem var mögulegt að taka ekki afstöðu, því að það bætti engu við já-ið eða nei-ið.

Þeir sem stæðu frammi fyrir spurningunni „náttúruauðlindir lýstar þjóðareign?“ í kjörklefanum mundu náttúrlega velta því fyrir sér: Eru það allar náttúruauðlindir, líka þær sem eru í einkaeigu? Þess vegna er nú búið að breyta því. Þetta snýst um að þær sem ekki eru í einkaeigu verði lýstar þjóðareign.

Með spurninguna um þjóðkirkjuna virtist gefið að allir sem færu í kjörklefann vissu nákvæmlega hvernig ákvæðið um þjóðkirkjuna væri. Það sama gilti um persónukjörið og spurninguna um hve hátt hlutfallið ætti að vera. Það var mat landskjörstjórnar að þær væru of leiðandi. Meiri hlutinn tók það til sín og leggur nú til að sá hluti verði felldur út.

Ég verð að segja alveg eins og er að þegar þessi þingsályktunartillaga kom fram á sínum tíma fannst mér hún vera afar flumbrulega unnin og spurningarnar afspyrnu afkáralegar og snubbóttar og það væri útilokað að senda þær út eins og þær voru, þær mundu ekki skýra málið nokkurn skapaðan hlut. Ég kem aðeins betur inn á umræðuna um það í nefndinni á eftir.

Í lok nefndarálits meiri hlutans er fjallað um viðbótarspurningu. Með leyfi forseta ætla ég að vitna beint:

„Þingsályktunartillaga þessi varðar með mjög afmörkuðum hætti meðferð á tillögum stjórnlagaráðs að nýjum stjórnarskipunarlögum og helstu nýmæli og álitaefni sem þar koma fram. Lögð hefur verið fram breytingartillaga við málið. Meiri hlutinn telur að sú tillaga varði eðlisólíkt og ótengt mál og því séu ekki efni til að fjalla um hana samhliða þessu máli.“

Frú forseti. Lagðar hafa verið fram fjölmargar breytingartillögur, yfir 20 tillögur, og ég vil því spyrja: Eru þær allar eðlisólíkar? Eru þær allar ótengdar? Ég vil líka spyrja, frú forseti: Hvar er meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar sem lagði fram þessar sex spurningar sem áður var farið yfir? Af hverju er hann ekki í þingsal að ræða það málefnalega hvort allar þessar nýju breytingartillögur, yfir 20 talsins, séu að mati meiri hlutans eðlisólíkar eða ótengdar og því séu ekki efni til að fjalla um þær samhliða málinu?

Ég verð að segja eins og er að mér finnst þetta sérkennilegt. Ef niðurstaðan á að vera sú í kjölfarið á þessari umræðu að breytingartillögurnar, yfir 20 talsins, komi til atkvæðagreiðslu án þess að meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar hafi fjallað um þær, þær fari í atkvæðagreiðslu óræddar, bendir margt til þess að menn hafi ekki mikinn áhuga á að fjalla málefnalega um þær tillögur sem hér eru fram komnar.

Um hvað snýst málið? Það væri kannski rétt að hætta aðeins að karpa um einstaka og jafnvel óskylda hluti, eins og kom fram í andsvörum áðan um skoðanir manna einhvern tíma fyrr og hvort þeir hefðu skipt um skoðun síðar meir. Danskur forsætisráðherra, sósíaldemókrati mikill, sagði eitthvað í þá veru að „man har et standpunkt, til man tager et nyt“, með leyfi forseti, sem þýðir beinlínis að maður hafi eina skoðun þangað til maður fær nýja. Það er svo sem ekkert ólíkt því sem við höfum horft upp á með Samfylkinguna sem virðist skipta um skoðun eftir því hvernig vindar blása, en það getur líka verið þannig að staðreyndir breytist og þá á maður auðvitað að kanna hug sinn og skipta um skoðun ef rök eru til þess.

Hér varð hrun, eins og margir hafa nefnt. Spurningin er þessi: Varð hrun vegna þess að stjórnarskráin var svo slæm? Var það stjórnarskrá Íslands að kenna? Nei, svo var ekki. Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og þingmannaskýrslunni sem hér var samþykkt 63:0 kom bersýnilega í ljós að ástæður hrunsins voru afleit stjórnsýsla og víða pottur brotinn hjá framkvæmdarvaldinu og eftirlitsstofnunum, en mest var það þó óprúttnum stjórnendum fjármálafyrirtækja að kenna. Mun ný stjórnarskrá leysa þennan vanda? Mun sú tillaga sem kom frá stjórnlagaráði koma í veg fyrir að hrun sambærilegt því sem við upplifðum hér á haustdögum 2008 verði aftur? Nei, ég tel svo ekki vera. Það þarf hins vegar að laga stjórnsýsluna og tryggja að eftirlitsstofnanir hafi bæði þau tól og tæki sem þær þurfa og að þær sinni síðan þeim störfum sem Alþingi og þjóðin ætlast til af þeim.

Munu þær sex spurningar sem meiri hlutinn leggur til svara öllum spurningum sem menn hafa sett fram um stjórnarskrána og þau vafamál sem þar hafa verið? Nei, alls ekki. Til að mynda fjallar engin þessara sex spurninga um valdsvið forsetaembættisins, sem þó hefur verið verulega til umfjöllunar.

Við framsóknarmenn höfum viljað í kjölfarið hrunsins gera ákveðnar breytingar, eins og kom fram í ágætri ræðu kollega míns, hv. þm. Höskuldar Þórhallssonar, þegar hann fór yfir stefnu Framsóknar um bindandi stjórnlagaþing og þær breytingar sem við vildum að yrðu gerðar. Því var klúðrað með því að klúðra kosningunum, sem ég ætla að koma inn á á eftir. Við höfum til dæmis talað í mörg ár fyrir því að nauðsynlegt sé að setja skýrt ákvæði um auðlindir í þjóðareign í stjórnarskrá, samanber fiskveiðistjórnarlögin og nýja stefnu Framsóknarflokksins þar um sem hefur legið fyrir frá flokksþingi okkar 2011. Við lögðum fram stefnu Framsóknarflokksins á vorþinginu og aftur í haust. Þar fjallar 1. gr. einmitt um þetta atriði, að tryggja að nytjastofnar í hafinu umhverfis Ísland séu þjóðareign og að koma þurfi slíku ákvæði í stjórnarskrá.

Í vetur hefur verið fjallað talsvert um stjórnarskrármál, þó hvergi nærri nóg. Ef hugmyndafræðin er sú að við ætlum að leita til almennings og spyrja um ákveðnar tilteknar spurningar þarf umræðan um núverandi stjórnarskrá og þær breytingar sem stjórnlagaráð lagði til að verða miklu víðtækari og almennari en raun ber vitni.

Ég var á ráðstefnu hjá Landssamtökum landeigenda fyrr í vetur. Þar voru nokkrir sérfræðingar, til að mynda Karl Axelsson hæstaréttarlögmaður, Róbert Spanó prófessor og fleiri, sem reyndu að útskýra eignarhaldsákvæðið í stjórnarskránni og þær breytingar sem hér er verið að ræða, þ.e. um náttúruauðlindir í þjóðareign. Niðurstaða þeirra var í stuttu máli, frú forseti, sú að munurinn á núverandi stjórnarskrárákvæði og þeim tillögum sem fram koma sé enginn eða mjög lítill. Hins vegar séu í greinargerðinni, sem fylgdi tillögunum frá stjórnlagaráði, verulega mörg álitaefni sem munu í framtíðinni — ef af verður og tillaga til stjórnlagaráðs verður óbreytt gerð að nýrri stjórnarskrá og greinargerðin fylgir málinu, eins og lagt var til í fyrstu tillögu til þingsályktunar um að tillaga stjórnlagaráðs yrði lögð fram sem frumvarp að nýrri stjórnarskrá — valda dómstólum talsverðum erfiðleikum. Aftur á móti munu þeir sem njóta þessa eignarréttar kannski ekki þurfa að óttast vegna þess að 1. mgr. 1. gr. mannréttindasáttmála Evrópu mun ævinlega verja núverandi ákvæði í stjórnarskránni og menn ættu fyrir vikið ekki að þurfa að hafa áhyggjur af því en hugsanlega þyrftu þeir að sækja rétt sinn fyrir dómstólum og dómstólar gætu lent í vandræðum vegna þess að í greinargerðinni rekist hvað á annars horn því að hún er alls ekki brúklegt skýringargagn.

Einnig var fjallað um tillögu stjórnlagaráðs á ráðstefnu Framsóknarflokksins um sveitarstjórnarstigið. Þar fjallaði doktorsnemi, Eva Marín Hlynsdóttir, um þetta. Niðurstaða hennar og þeirra sem hún vitnaði til var sú að breytingin frá mjög stuttum og hnitmiðuðum setningum í núverandi stjórnarskrá væri mikill texti og flókinn sem segði ekkert meira. Það væri sem sagt ekkert gert með sveitarstjórnarstigið til að skýra hvernig það stæði betur eða öðruvísi í nýrri stjórnarskrá en það gerir nú.

Þessi tvö dæmi, frú forseti, segja mér að tillögurnar frá stjórnlagaráðinu séu á margan hátt þess eðlis að við hefðum þurft að fjalla miklu meira og efnislegar um þær.

Nú ætla ég að víkja að nefndaráliti 2. minni hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar sem hefst á því að fjallað er um að ferli málsins hafi verið ein sorgarsaga eins og ég kom aðeins inn á í máli mínu áðan. Þar er minnst á aðkomu Hæstaréttar sem ógilti kosningu stjórnlagaráðs. Í nefndarálitinu kemur fram að í flestum venjulegum lýðræðisríkjum hefði sú ríkisstjórn sem ekki gat framkvæmt gilda kosningu væntanlega sagt af sér en það gerðist ekki hér. Í stað þess að kjósa upp á nýtt til stjórnlagaþings fóru menn þá sérkennilegu leið að skipa þá sem höfðu verið kosnir í hinni ólöglegu kosningu í stjórnlagaráð. Ég ætla ekki fara nánar út í það. Einnig er komið inn á kostnaðinn í nefndaráliti 2. minni hluta. Hann er þyrnum stráður.

Eftir að stjórnlagaráð skilaði tillögu að nýrri stjórnarskrá til Alþingis hefur stjórnskipunar- og eftirlitsnefndin haft málið til umræðu í rúma fimm mánuði en þar hefur engin efnisleg umræða farið fram, frú forseti.

Skemmst er frá því að segja, svo að ég vitni í nefndarálitið, með leyfi forseta:

„Skemmst er frá því að segja að 2. minni hluti man ekki eftir neinum nafngreindum sérfræðingum í stjórnskipunar-, auðlinda- og umhverfisrétti eða á öðrum réttarsviðum sem hafa lagt heildstætt lofsyrði á tillögur ráðsins vegna misræmis í tillögunum.“

Hvernig hefði ferlið átt að vera? Það kom skýrsla frá stjórnlagaráði til forseta þingsins. Eðlilegt hefði verið að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd færi yfir þá skýrslu og skilaði áliti sínu inn í þingsal. Það hefði að mínu viti verið langeðlilegast að áliti þessu væri skilað nú á vorþingi en ekki á næsta þingi eða einhverju þingi héðan í frá. Ég tel það eðlileg vinnubrögð að þær skýrslur sem nefndir þingsins fá til umfjöllunar rati sem fyrst inn í þingsal. Eftir breytinguna á þingsköpunum fara mjög margar skýrslur, ef ekki allar, til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Vissulega hefur verulega mörgum skýrslum verið beint þangað og er því vinnuálagið mikið, en þar hafa menn því miður ekki valið þann kost að skila þeim strax af sér.

Í upphafi bentu margir á, þar á meðal fulltrúi framsóknarmanna í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, hv. þm. Vigdís Hauksdóttir, sú sem skrifar undir 2. minnihlutaálitið, að greinargerðin sem fylgdi með tillögu stjórnlagaráðs væri ekki brúkleg. Menn þvældu með það fram og aftur en núna viðurkenna allir að greinargerðin er ónothæf. Þess vegna hefur verið ákveðið af meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar að fá til liðs við nefndina sjö sérskipaða lögfræðinga til að yfirfara greinargerðina og tillögurnar og búa til samræmdar tillögur. Þetta hljómar í mínum eyrum, frú forseti, eins og menn viti ekki alveg hvað þeir eru að fara að gera. Við erum að ræða um örfáar spurningar sem á að varpa til þjóðarinnar á sama tíma og sérfræðingar vinna samhliða að breytingum sem hugsanlega og mjög líklega snúa að nákvæmlega sömu spurningum, auk fjölmargra annarra eins og ég nefndi fyrr í ræðu minni varðandi valdsvið forseta Íslands o.fl.

Það er sem sagt skoðun mín að þessi skýrsla hefði átt að fá lokaumfjöllun hjá nefndinni á þessu þingi. Þar hefði niðurstaða skýrslunnar væntanlega getað orðið sú að greinargerð stjórnlagaráðs væri ófullnægjandi og að tillaga meiri hlutans væri sú að fá þennan sérfræðingahóp til að yfirfara málið og þannig mundi málið komast á næsta stig. Í kjölfarið væri kannski eðlilegast að spyrja þjóðina, þ.e. þegar sérfræðingarnir væru búnir að yfirfara allt og enn væru einhver álitamál uppi sem menn vildu spyrja þjóðina um. Því miður var ekki valin sú leið.

Sú tillaga sem meiri hlutinn taldi að væri ótengd og ólíkt efni var, svo ég vitni aftur til nefndarálitsins, með leyfi forseta:

„Í ljósi þess að boðað er til þjóðaratkvæðagreiðslu samhliða forsetakosningum telur 2. minni hluti það eðlilega kröfu út frá lýðræðissjónarmiðum að landsmenn fái að segja hug sinn til umsóknar Íslands um aðild að Evrópusambandinu. Naumur meiri hluti alþingismanna tók þá ákvörðun í atkvæðagreiðslu á Alþingi hinn 16. júlí 2009 að hafna breytingartillögu um að landsmenn segðu hug sinn um það hvort leggja ætti inn umsókn um aðild að Evrópusambandinu. Féllu atkvæði þannig að nei sögðu 32 þingmenn, já sögðu 30 þingmenn og einn alþingismaður sat hjá.“

Ég tek undir það sem fram kemur í nefndarálitinu að mikilvægt sé að skýrt sé hvort þjóðarvilji sé fyrir ESB-umsókn Íslands. Ég tek líka undir þá umræðu sem hefur farið fram að einstaka ákvæði í tillögum stjórnlagaráðs er varða framsal til alþjóðastofnana snerti með beinum hætti aðildarumsóknina að Evrópusambandinu og því sé þetta mál á engan hátt ótengt eða efnislega ólíkt og því fullkomlega eðlilegt að setja þessa spurningu fram.

„Nú þegar“ — eins og fram kemur í nefndarálitinu — „hefur 2. minni hluti lagt fram breytingartillögu í málinu, samanber þingskjal 1028, sem orðast svo: „Við 3. efnismálsgrein bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Vilt þú að stjórnvöld dragi aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu til baka?“

Undir þetta hafa ýmsir stjórnarliðar tekið, til að mynda hv. þm. Árni Páll Árnason, hv. þm. Helgi Hjörvar og nú síðast hæstv. umhverfisráðherra Svandís Svavarsdóttir hér í morgun. Sambærileg sjónarmið hafa heyrst frá hæstv. innanríkisráðherra Ögmundi Jónassyni og ef til vill fleirum. Það er því augljóst í ljósi niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar sumarið 2009 og þeirra breytinga sem hafa orðið í Evrópu (Forseti hringir.) að fullkomlega eðlilegt er að hafa þessa spurningu með.

Nú hef ég, frú forseti, lokið tíma mínum en engan veginn við það efni sem ég ætlaði að fara yfir. Ég bið því forseta að setja mig aftur á mælendaskrá.