140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[19:11]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi síðustu spurninguna hvort kominn sé meiri hluti fyrir því að hætta aðildarviðræðum, er að minnsta kosti sláandi að hugsa til þess að sumarið 2009 þegar Ísland var svo sannarlega á hnjánum og við vissum ekki alveg í hvaða átt við áttum að líta eftir bjargráðum og vorum satt best að segja nokkuð reikul í spori, þegar tillagan um að sækja um aðild að Evrópusambandinu kom fram, var tillaga um að senda það í þjóðaratkvæði og spyrja þjóðina ráða felld með 32 atkvæðum, en 30 vildu að það yrði gert og einn sat hjá. Það er lítill meiri hluti.

Síðan hefur auðvitað margt breyst á Íslandi, við höfum náð vopnum okkar að einhverju leyti og vitum að minnsta kosti hvert við viljum stefna, mörg hver okkar, en á sama tíma hafa hlutirnir í Evrópu og innan Evrópusambandsins ekki síst, farið mjög á verri veg. Ég er því ekki viss um að í dag sé sá meiri hluti fyrir aðildarumsókninni sem var í þinginu sumarið 2009.

Varðandi það að spyrja þjóðina ráða hlýtur maður að minnsta kosti að álykta að þeir flokkar, stjórnarflokkar, sem tala mjög mikið um að leita til þjóðarinnar, til að mynda um þær sértæku spurningar sem meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar hefur lagt til, vilji það. Þeir tala mjög gjarnan um að þeir séu miklir lýðræðisflokkar og vilji spyrja þjóðina um allt milli himins og jarðar, þótt þeir hafi reyndar verið á móti því að spyrja hana um Icesave og hafi margfellt að taka til umfjöllunar tillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB-umsóknina. Maður getur velt því fyrir sér, í ljósi yfirlýsinga einstakra stjórnarliða sem ég nefndi í ræðu minni, hvort sá meiri hluti sé horfinn og staðan sé breytt í þinginu. Staðan er að minnsta kosti breytt í Evrópu og það er mín skoðun að (Forseti hringir.) við ættum að hlusta á rökin og taka upplýsta ákvörðun að nýju út frá nýjum forsendum.