140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[19:18]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í svari sínu kemur hv. 3. þingmaður Suðurkjördæmis inn á það sem er auðvitað ákveðinn vandi í þessu sem er sá að vegna þess að meiri hlutinn í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og hugsanlega meiri hlutinn á þingi, við vitum það ekki enn, er alltaf að fara í einhverjar æfingar með málsmeðferð og form hefur orkan því miður farið allt of mikið í það. Og bara til að rifja upp hvernig mál hafa gengið fyrir sig á vettvangi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar þá hefur það að mörgu leyti verið fróðlegt og ágætt og ég ætla ekki að gera lítið úr því sem gert hefur verið, sem meðal annars fólst í því að fjöldamargir gestir komu á fund nefndarinnar og greindu frá sjónarmiðum sínum um tillögur stjórnlagaráðs. Nefndin sem slík hefur hins vegar ekki tekið þá umræðu enn þá sem nauðsynleg er til að reyna að vinna úr þeim upplýsingum sem fram hafa komið af hálfu gestanna eða reyna með einhverjum hætti að ná fram sjónarmiðum eða sætta sjónarmið milli nefndarmanna eða annað slíkt.

Að því er snýr að efnislegum þáttum tillagna stjórnlagaráðs þá höfum við vissulega fengið fjöldamarga gesti sem reyndar hafa flestir, eins og fram hefur komið fyrr í þessari umræðu, verið mjög gagnrýnir á tillögur stjórnlagaráðs ýmist að hluta eða í heild. Það er svolítið misjafnt hver nálgun manna hefur verið en þeir gestir sem komið hafa á fund nefndarinnar hafa flestir, ekki allir en flestir, verið mjög gagnrýnir og hefur gagnrýnin verið hvað hörðust frá þeim sem sérhæfingu hafa á sviði stjórnskipunarréttar og lögfræði. En nóg um það.

Þetta setur málin auðvitað í dálítið einkennilegt ljós og það sem er að gerast núna með þeirri tillögu sem er til umræðu er að enn er verið að skjóta á frest hinni efnislegu umræðu á vettvangi þingsins (Forseti hringir.) og þingnefndarinnar um stjórnarskrármálið vegna þess að verið er að fara í einhverjar nýjar málsmeðferðaræfingar.