140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[20:20]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi fyrri spurninguna, þessa um jöfnunarsjóð og hvað yrði um hann eða hlutverk hans, má margt segja um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Ég ætla að leyfa mér að segja að síðustu breytingar sem fólust í að bjarga einhverjum sveitarfélögum sem fóru offari í fjárfestingum voru að mínu viti óréttmætar. Jöfnunarsjóður var ekki hugsaður þannig á sínum tíma.

Ég sé alveg fyrir mér að einhver slíkur sjóður, hvað sem hann mundi heita og hvernig sem hann starfaði, gæti fengið aukið hlutverk í að jafna tekjur milli sveitarfélaga og hugsanlega líka komast að með einhvers konar stærra hlutverk ef það yrði raunin.

Varðandi útgjöldin sem hv. þingmaður spurði um er hægt að velta upp ýmsum leiðum í því hvernig jafna megi þau. Það sem er verið að vísa til er að í dag verða tvær af hverjum þremur krónum sem landsbyggðin framleiðir eftir á höfuðborgarsvæðinu. Það kann að vera eðlilegt í ljósi umfangs höfuðborgarsvæðisins, stjórnsýslu og alls þess, en að sama skapi er líka ætlast til að landsbyggðin búi við jafnt atkvæðavægi við höfuðborgarsvæðið sem er til þess fallið að skekkja myndina enn frekar. Í tillögum stjórnarmeirihlutans í sjávarútvegsmálum er enn gert ráð fyrir að flytja meira fjármagn af landsbyggðinni til höfuðborgarinnar.

Það sem við segjum hins vegar er að það kann að vera hægt að jafna þetta með jafnari útgjaldadreifingu frá ríkinu, þ.e. hvort sem þetta er á haus eða sveitarfélög eftir samsetningu sveitarfélaga. Ég skal viðurkenna að það er ekki útfærsla í þessari tillögu enda var það ekki meiningin.