140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[20:37]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er líklega mergurinn málsins, að búið er að semja við þingmenn Hreyfingarinnar um að styðja ríkisstjórnina gegn því að þau fái sitt eina stefnumál fram og það er að senda eitthvað í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég segi eitthvað í þjóðaratkvæðagreiðslu því að spurning eitt hljóðar þannig að spurt er hvort landsmenn séu sammála því að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar nýrri stjórnarskrá. Þessi þjóðaratkvæðagreiðsla á að fara fram í lok október á þessu ári. Samt er verið að vinna með tillögurnar núna, þessi lögfræðihópur sem ég vísaði í, þetta lögfræðiteymi sem búið er að fá til að endurskoða allar tillögur stjórnlagaráðs ásamt greinargerðinni.

Spurning númer eitt er nú þegar orðin úrelt. Hvað verður um vinnu lögfræðiteymisins ef það kemur nei út úr þjóðaratkvæðagreiðslunni? Þetta er ekki bindandi þjóðaratkvæðagreiðsla þannig að það er alveg sama hvort maður mætir á kjörstað og segir já eða nei. Ríkisstjórnin og Hreyfingin ráðherralaus geta beitt þessu að vild. Hér er verið að kasta mjög miklum peningum á glæ með því að fara með þetta svona í þjóðaratkvæðagreiðslu og það er svo mikill misskilningur í gangi í samfélaginu. Við þingmenn höfum verið að fá tölvupósta í dag þar sem þess er krafist að fólk fái að kjósa um stjórnarskrána.

Ég er inni á því að fólk fái að kjósa í næstu alþingiskosningum um nýja stjórnarskrá sem okkur tekst vonandi að semja, en þetta er ekki kosning um stjórnarskrána. Þetta er ein spurning um það, eins og ég fór yfir áðan, hvort tillögur stjórnlagaráðs eigi að vera drög að nýrri stjórnarskrá. Tvö atriði eru beint upp úr stefnuskrá Vinstri grænna, tvö atriði upp úr stefnuskrá Samfylkingarinnar (Forseti hringir.) og svo fékk Hreyfingin að setja síðustu spurninguna (Forseti hringir.) um það að ákveðna prósentutölu þurfi til að boða til þjóðaratkvæðagreiðslu.