140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[20:51]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Varðandi þessa tillögu til þingsályktunar, um ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur stjórnlagaráðs, tek ég fram enn og aftur að við erum ekki að ræða þjóðaratkvæðagreiðslu um nýja stjórnarskrá heldur hvort fara eigi í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Þar er meginspurningin sú hvort tillögur stjórnlagaráðs eigi að liggja til grundvallar endurskoðun á stjórnarskránni og svo nokkrar spurningar sem hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefur lagt fram. Fleiri breytingartillögur hafa þó verið lagðar fram og sumar þeirra eru áhugaverðar og kalla eiginlega á að vera ræddar. Þær hafa þó ekki verið ræddar mikið hér í dag. Tillaga frá 1. minni hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar um nýja spurningu til þjóðarinnar í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu á þeim spurningavagni hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Vilt þú að í stjórnarskrá verði ákvæði þar sem forseta Íslands er falið að stýra myndun ríkisstjórnar?“

Þetta er áhugaverð spurning og ég get svarað því hér og nú fyrir mig að væri þessi spurning í spurningavagninum mundi ég segja: Nei. Hér hefur oft verið rætt að þeir sem vilja forsetaembætti segja að forsetinn eigi ekki að skipta sér af pólitík. Við getum svo verið sammála eða ósammála um það hvort forsetar lýðveldisins almennt hafa skipt sér af pólitík en mér þætti algjörlega fráleitt að fara þá leið að fela forseta Íslands að stýra myndun ríkisstjórnar. Við göngum til alþingiskosninga og það er þeirra flokka sem standa best að vígi eftir slíkar kosningar að mynda nýja ríkisstjórn. Þá er það skýr vilji atkvæðisbærra kjósenda í landinu hverjir eigi að vera í forustu. Það er þeirra stjórnmálamanna að taka við keflinu og vinna vinnuna. Ég hefði kosið að heyra hvað fleiri þingmönnum þætti um að slík spurning færi til þjóðarinnar. Mér þykir hún áhugaverð og ég mundi greiða því atkvæði að þjóðin yrði spurð um þetta.

Hér er líka önnur tillaga frá Lilju Mósesdóttur og tveimur þingmönnum sem sátu sem varaþingmenn Hreyfingarinnar, Jóni Kr. Arnarsyni og Valgeiri Skagfjörð, sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um að almenningur geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um lög sem varða skattamál?“

Þetta er í sjálfu sér áhugaverð spurning en ég er þeirrar skoðunar að yrði þjóðin spurð hennar mundi hún án efa segja: Já. Hver vill ekki hafa afskipti af skattamálum sínum, um það hvort hækka eigi skatta eða lækka, hvort fara eigi í breytingar á vörugjöldum eða breytingar á þessu eða hinu? Ég geri ekki athugasemd við að þjóðin eigi að hafa skoðun á því en ég teldi harla erfitt að koma saman fjárlögum, og segi það í fullri hreinskilni, ef spyrja ætti þjóðina í hvert skipti sem menn ætluðu sér að breyta sköttum til eða frá. Það er klárt að það er jafnstór spurning að spyrja þjóðina hvort lækka eigi skatta og hækka þá.

Þær breytingartillögur sem hér eru lagðar fram hafa ekki fengið neina umræðu og ég sakna þess eiginlega að þeir sem lögðu þær fram skuli ekki hafa staðið fyrir öflugri umræðu um þær í þinginu. Þar sem þessir varaþingmenn Hreyfingarinnar eru farnir af þingi hefðu þingmenn Hreyfingarinnar getað tekið þátt í þessari umræðu. Þeir hafa hins vegar ekki sést.