140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[21:03]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Til að halda áfram með það hvort framselja eigi ríkisvald til alþjóðlegra stofnana held ég að það þurfi að skoða … (Forseti hringir.)

(Forseti (ÁI): Forseti hvetur hv. þingmann til að fylgjast með svarinu sem hann óskaði eftir.)

(ÁsmD: Ég er svo fjölhæfur að ég get setið hér og fylgst með.)

Það þarf að fara fram meiri og betri umræða um hvað þetta þýðir í raun, bæði hvað varðar EES-samninginn og þær tilskipanir og gerðir. Menn þurfa að ræða það frekar í þinginu og koma sér að minnsta kosti saman um hvort það hafi fram til þessa farið á þann veg að með því að samþykkja hér gerðir og tilskipanir EES-samningsins sé verið að framselja ríkisvald til alþjóðlegra stofnana. Það er einfaldlega mín skoðun að við ættum að ræða það frekar hér áður en við leggjum fyrir slíka spurningu til að skoða hvernig þetta hefur verið gert fram til þessa, hvað það þýði og hvað þessi spurning þýði í raun.

Hvað varðar hitt, hvort það eigi að binda í stjórnarskrá byggðapólitík, er svar mitt: Nei. Ég held hins vegar að það sé algjörlega ljóst að við viljum byggð í landinu og hana sem blómlegasta en við þurfum að mæta því með öðrum hætti en þeim að binda í stjórnarskrá eitthvað sérstaklega fyrir landsbyggðina og annað fyrir þéttbýlið. Stjórnarskráin miðar að grunnréttindum hvers Íslendings hvar á landinu sem hann býr. Það er grunnurinn, annað þurfum við að fara með í annars konar verkefni innan þings sem utan. Það er ekki hægt að binda einstaka landshluta í stjórnarskrá með réttindum og skyldum íbúanna sem þar búa.