140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[21:11]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég skildi þetta reyndar ekki með sama hætti og hv. þm. Vigdís Hauksdóttir. Ég taldi að þeir sérvöldu lögfræðingar sem valdir hafa verið til að fjalla um tillögur stjórnlagaráðs og það sem hér liggur fyrir eigi að fara yfir tæknilega þætti til að skoða hvort tillögurnar séu í samræmi innbyrðis. Ég hef ekki litið svo á og hef ekki heyrt um það rætt að þessir lögfræðingar eigi að breyta tillögum stjórnlagaráðs. (VigH: Jú.) Það er ekki minn skilningur. Það er þingsins, sem tekur við frumvarpinu úr hendi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, að fjalla um þær tillögur sem þá koma fram og það er þingsins að taka afstöðu til þeirra. Þá liggur væntanlega fyrir hvort tillögurnar stangast á innbyrðis.

Ég vil hins vegar taka það skýrt fram að ég tel þessa ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu út í hött. Ég tel að þingið eigi að taka tillögur stjórnlagaráðs, ræða þær, leggja þær fyrir sem frumvarp að breyttri stjórnarskrá, ljúka þeirri umræðu, afgreiða stjórnarskrá í þokkalegri sátt, leggja hana fyrir þjóðina í næstu alþingiskosningum eða fyrir alþingiskosningar til að nýtt þing geti samþykkt þá stjórnarskrá og þjóðin annað tveggja tekið við henni eða synjað og þá gildi sú gamla áfram, þannig eigi ferlið að vera. Ég hef aldrei verið sátt við þetta ferli og tel að eina spurningin sem ætti að vera sé 1. spurningin fyrst verið er að fara í þetta ferli á annað borð.