140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[21:19]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri H. Blöndal fyrir ræðu hans.

Ef við færum nú efnislega í tillögur stjórnlagaráðs, sem eru að vísu ekki á dagskrá vegna þess að það er hér verið að ræða þessa þjóðaratkvæðagreiðslu, er margt ansi kynlegt í þeim tillögum. Stjórnarskrá hvers ríkis er til þess að verja rétt borgaranna í viðkomandi ríki fyrir ofríki stjórnvalda. Það er grunninntak allra stjórnarskráa í heiminum. En í tillögum stjórnlagaráðs er til dæmis eitt ákvæði þar sem réttur dýra er tryggður. Ég átta mig bara ekki á því hvers vegna það á að tryggja rétt dýra í stjórnarskrá Íslands, en þetta er bara eins og það er og því verður sjálfsagt kippt út. Ég treysti vel þeim lögfræðihópi sem búið er að skipa núna til að lesa þetta yfir og hreinsa þarna til, taka burtu ákvæði sem ekki eiga að vera í stjórnarskránni og skýra önnur.

Ég sit í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og ég tel að það sé vinna hópsins að lesa tillögurnar með greinargerð og taka út það sem ekki á heima í stjórnarskránni þrátt fyrir að skilningur hv. þm. Ragnheiðar Ríkharðsdóttur sé annar. Ég vildi bara koma því að.

Mig langar að spyrja hv. þingmann: Er ekki einkennilegt að fara fram núna með þessa atkvæðagreiðslu sem á að vera í síðasta lagi fyrir októberlok á þessu ári, á sama tíma og lögfræðihópurinn er að störfum við að breyta drögunum og þess háttar? Verða þessar spurningar þá ekki orðnar úreltar í haust vegna þess að skýrslan á eftir að taka svo miklum breytingum í vinnu þessa lögfræðihóps? Meðal annars hefur verið viðurkennt að endurskrifa þurfi greinargerðina.