140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[21:54]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Annað sem við höfum ekki komið inn á er nátengt því sem hv. þingmaður er að tala um og það er hvernig dómaframkvæmd breytist við breytingar á stjórnarskrá. Lög stafa af stjórnarskrá og ef breyting verður á stjórnarskrá leiðir það óhjákvæmilega til breytinga á lögum, ekki öllum lögum en einhverjum lögum. Það skapar réttaróvissu meðan einhvers konar dómaframkvæmd kemst á og annað slíkt. (Gripið fram í.)

Hugsum okkur stjórnarskrá Bandaríkjanna. Hugsum okkur að í henni yrði hnikað til einni setningu. Hvað mundi gerast? Það yrðu skrifaðar ótal fræðigreinar, það væru haldnar ráðstefnur, það væru skrifaðar bækur og gríðarlega mikil umfjöllun yrði um breytinguna og hvaða afleiðingu hún hefði. Okkur munar hins vegar ekkert um að rumpa upp stjórnarskrá á fjórum mánuðum og henda henni í þingið, jafnvel með hótunum frá meðlimum ráðsins um að ef við hlýðum ekki gerist hitt og þetta. Þetta er náttúrlega fáheyrt — algjörlega fáheyrt. Þetta varpar ljósi á hve aðferðafræðin við þetta er röng og hvað við nálgumst þetta á rangan hátt. Þetta getur haft stórkostlegar afleiðingar. Það er látið eins og þetta sé eitthvert smámál. (VigH: Akkúrat.)