140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[22:02]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Ármannssyni fyrir ræðu hans. Það er allt hárrétt sem þingmaðurinn fór yfir varðandi vinnulagið. Ég hef stundum sagt að sífellt sé verið að finna upp nýja og nýja tafaleiki því að svo virðist vera sem ríkisstjórnin treysti sér ekki til að bera efnislega ábyrgð á þessu máli. Ríkisstjórnin hefði átt að leggja fram drögin sem stjórnlagaráð samdi, bera þau upp í þinginu og flytja málið, í stað þess að vera að setja það hér inn og taka út úr þinginu, sem er mjög einkennilegt.

Ég ætla að lýsa því yfir, frú forseti, að ég er mjög ánægð með að nú skuli loks vera búið að taka ákvörðun um að fá færa lögfræðinga til þess að lesa tillögurnar yfir. Okkur í minni hlutanum var að vísu ekki boðið að tilnefna okkar fulltrúa í þann hóp, við hefðum kannski getað verið með minni hluta í því, en það verður bara að hafa það. Þetta eru aðilar sem ég treysti þrátt fyrir að ríkisstjórnin skipi þá.

Talað er um að þetta verði lagatæknilegur yfirlestur og mig langar því að spyrja þingmanninn: Telur hann ekki trúlegt að 7. gr. þessara frumvarpsdraga verði breytt? Í þeirri grein stendur: Allir hafa meðfæddan rétt til lífs. Hvernig getur ríkið tryggt það? Í 8. gr. stendur: Öllum skal tryggður réttur til að lifa með reisn. Í 17. gr. stendur: Tryggja skal með lögum frelsi vísinda, fræða og lista. Er það sem ég fór hér yfir í þessum þremur lagagreinum eitthvað sem á að vera í stjórnarskrá og hvernig á ríkisvaldið að geta (Forseti hringir.) uppfyllt þær kröfur sem settar eru fram í þessum greinum?