140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[22:18]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þau efni sem hv. þm. Ásmundur Einar Daðason ræðir hér eru eiginlega þess eðlis að þau gera kröfu um sérstaka og mjög langa umræðu vegna þess að þetta er ekki einhlítt.

Í sambandi við fullveldisframsal getum við til dæmis velt fyrir okkur formlegu fullveldisframsali, sem EES-samningurinn er hannaður til að forðast. Það er allt önnur uppbygging á stofnanaþætti þess samnings og regluverki að þessu leyti, en á stofnanaverki og regluverki ESB.

Það var meðvituð ákvörðun hjá þeim sem sömdu um gerð EES-samningsins á sínum tíma að búa til annað módel, einmitt til þess að ekki yrði um formlegt fullveldisframsal að ræða. Það hefur síðan verið deilt um hver þróunin hefur verið á framkvæmd þessa samnings og hvort hún feli í sér að menn hafi smátt og smátt misst frá sér einhverja þætti fullveldisins. Það er út af fyrir sig umræðuefni og eitthvað sem við þurfum að fara yfir.

Ég er í meginatriðum sammála hv. þingmanni um að við eigum að viðhalda EES-samningnum, það er alla vega mín skoðun, og reyna að sníða agnúa af honum. Varðandi ákvæði í stjórnarskrá er hins vegar nauðsynlegt að geta þess að hægt er að orða ákvæði um fullveldisafsal eða fullveldisframsal ríkisvalds til alþjóðlegra stofnana með misjöfnum hætti. Það er hægt að gera það mjög opið, jafnvel svo að það geti innifalið heimild til að ganga í ríkjasamband á borð við Evrópusambandið. En það er líka hægt að orða það með miklu þrengri hætti þannig að hugsanlega sé einungis heimilt framsal ríkisvalds í takmörkuðum mæli á mjög afmörkuðum sviðum (Forseti hringir.) og háð mjög ströngum skilyrðum. Það er líka hægt að gera það þannig.