140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[22:28]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég skildi málflutning hv. þingmanns ekki svo að með tillögunni væri tekin afstaða til málsins. Ég var hins vegar að lýsa þeirri skoðun minni að ég væri fylgjandi því að þessi tillaga kæmi fram eins og hún er orðuð, þ.e. að kannað yrði hvort þjóðin vildi afsala sér frekara fullveldi í stjórnarskrá eða ekki. Það mætti líka velta því upp hvort skynsamlegt væri að orða spurninguna öðruvísi, hvort þjóðin vilji jafnvel styrkja fullveldið enn frekar í stjórnarskrá en nú er. En ég var líka að lýsa minni persónulegu skoðun á því að eðlilegt væri að við gengjum ekki lengra í þessa átt og færum fremur í hina áttina, styrktum fullveldið og færum ekki í frekara fullveldisafsal í stjórnarskrá líkt og hæstv. utanríkisráðherra hefur ítrekað talað um og Evrópusambandið hefur meðal annars ályktað um í þá veru að við þurfum að heimila frekara fullveldisafsal til að ganga í Evrópusambandið. Ég er andvígur því en mér finnst sjálfsagt að spyrja þjóðina.

Maður veltir því óneitanlega fyrir sér af hverju þessi spurning er ekki höfð með í spurningavagni meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og ríkisstjórnarinnar. Kann að vera að ríkisstjórnin óttist það að þjóðin vilji ekki afsala sér fullveldi frekar en orðið er? Kann að vera að meiri hluti þjóðarinnar sé mótfallinn hæstv. utanríkisráðherra sem vill heimila fullveldisafsal í stjórnarskrá? Mér finnst ekki ólíklegt að sú sé raunin og þess vegna velti ég fyrir mér hvort það sé ástæðan fyrir því að þessi spurning er ekki í spurningavagni ríkisstjórnarinnar og þær spurningar sem þar eru hafi þá frekar verið valdar.

Ég treysti þjóðinni vel til að taka afstöðu í þessu máli og hræðist ekki niðurstöðuna því að ég finn það (Forseti hringir.) alls staðar þar sem ég kem að vilji er til að standa vörð um fullveldi þjóðarinnar.