140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[22:33]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er hárrétt hjá hv. þingmanni og sjálfsagt að skoða það. Hins vegar vil ég vitna aftur til orða hv. þingmanns í fyrra andsvari, þegar hann sagði að lagaspekingar hefðu farið yfir EES-samninginn á sínum tíma og komist að því að þar væri farið á ystu nöf varðandi fullveldisafsal en það væri réttum megin við strikið, því að nú erum við að komast að hinu gagnstæða. Utanríkisráðherra heldur því m.a. fram að það þurfi að opna þessar heimildir meira.

Þetta þurfum við allt að nálgast af mikilli varúð. Ég tek undir með hv. þingmanni að allt orðalag í þessu samhengi skiptir gríðarlega miklu máli, að það sé skýrt og enginn vafi leiki á því við hvað sé átt hverju sinni.

Það blasir við að sitjandi ríkisstjórn hefur fullan pólitískan vilja til að framkvæma gríðarlegt fullveldisafsal frá Íslandi til alþjóðlegra stofnana og ríkjabandalaga. Ég held að það sé full ástæða til að hafa áhyggjur af því. Ég hygg að andrúmsloftið hér á landi, væri það skoðað, sé mjög sambærilegt því sem er t.d. í Noregi, kannski ekki gagnvart afstöðu til EES-samningsins sem slíks, því að ég held að það sé meiri stuðningur við hann hér en er í Noregi, heldur til fullveldismála og fullveldisafsals. Það er vaxandi andstaða í Noregi við það og Norðmenn eru að fikra sig í þá átt að hafna EES-reglugerðum. Ég hugsa að landslag hins almenna borgara hér á landi sé sambærilegt.

Þess vegna á spurning hv. þingmanns, svo ég segi það enn einu sinni, fyllilega rétt á sér ef menn ætla (Forseti hringir.) á annað borð að bera svona (Forseti hringir.) spurningavagn fram fyrir þjóðina.