140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[22:37]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Já, þær tillögur sem hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson flytur eru á margan hátt ekkert óeðlilegar miðað við hvernig málið er unnið. Eins og hv. þm. Kristján Þór Júlíusson benti á erum við ekki að ræða efnislegar tillögur. Við erum ekki að ræða það að senda heilsteypta stjórnarskrá í þjóðaratkvæðagreiðslu. Vinnan er ekki komin á þann stað. Margir veltu því fyrir sér hvort forusta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar réði einfaldlega við þetta mál miðað við fregnirnar sem voru að berast af störfum hennar seinni hluta vetrar.

Forustumenn í nefndinni hafa heldur talað um að þetta sé einhvers konar samráð við þjóðina til að átta sig á því hvernig landið liggur og hvernig fólk vilji haga vinnunni og annað því um líkt. Það er nefnilega mikill misskilningur að við séum að kjósa um breytingar á stjórnarskránni, einhverjar heilsteyptar tillögur í því efni. Í því ljósi eru þessar þrjár tillögur frá hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni og formanni Framsóknarflokksins ekkert óeðlilegar.

Hér segir til dæmis, með leyfi frú forseta: „Eiga breytingar á stjórnarskrá að miða að því að um hana verði sem víðtækust sátt?“

Þetta er um formið á vinnunni, ekki um efnisatriðin vegna þess að við erum ekki komin á þann stað í þessari vinnu. Þau ummæli er ég ekki að finna upp hjá sjálfum mér heldur er þetta bara það sem forustumenn stjórnarflokkanna í hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hafa sagt sjálfir. Það er fyrst og fremst verið að fá afstöðu þjóðarinnar til vinnu sem ekki er lokið og tæplega hafin.