140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[22:44]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég hef verið að fara í gegnum breytingartillögur sem lagðar hafa verið fram og ætla að halda því áfram. Ég ítreka það sem ég hef sagt áður að sú tillaga sem um er að ræða er að láta kanna ákveðnar spurningar, kanna tillögur stjórnlagaráðs og bæta við spurningum til að kanna hug þjóðarinnar til þeirra málefna sem þar eru rædd. Þar er sem sagt ekki verið að greiða atkvæði um stjórnarskrá. Það er vitað og viðurkennt að ýmislegt þarf að laga í þeim tillögum sem komu frá stjórnlagaráði til að þær gangi einfaldlega upp, sem þýðir vitanlega það að fara þarf yfir hverja og eina grein, vega, meta og máta hvort þær standast lagatæknileg atriði og samninga sem við höfum gert o.s.frv.

Hér liggur fyrir tillaga frá 1. minni hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, Birgi Ármannssyni og Ólöfu Nordal, að spurningu sem þau telja að rétt sé að bera upp í kosningunni í október. Tillagan hljóðar svona, með leyfi forseta:

„Vilt þú að í stjórnarskrá verði ákvæði þar sem forseta Íslands er falið að stýra myndun ríkisstjórnar?“

Ég hygg að þessi tillaga eigi rætur sínar að rekja til V. kafla í tillögum stjórnlagaráðs um ráðherra og ríkisstjórn og væntanlega þá 90. gr. þar sem fjallað er um stjórnarmyndun og fram kemur að Alþingi kjósi forseta. Það er nýmæli að sett sé inn með þessu að fram fari einhvers konar kosning á Alþingi um forsætisráðherra og með skýringum stjórnlagaráðs kemur fram að ef ekki takist að kjósa forsætisráðherra í fyrstu umferð sé haldið áfram og síðan taki við ákveðið ferli. Það er sem sagt forseti landsins sem setur fram tillögu um forsætisráðherraefni.

Eins og við þekkjum öll hér á landi hefur venjan verið sú að eftir kosningar ræðir forseti Íslands við formenn eða fulltrúa stjórnmálaflokkanna og í framhaldi af því felur hann einhverjum einum að fara í stjórnarmyndunarviðræður við aðra flokka. Ég skil því tillögu þingmanna þannig að þeir telji rétt að spurt sé hvort þeir sem taka þátt í atkvæðagreiðslunni í október séu sammála því að þannig eigi það að vera áfram.

Ég velti fyrir mér hvort það hefði átt að vera til að skýra þessa spurningu enn frekar eitthvert orðalag „líkt og verið hefur“ eða eitthvað slíkt þannig að fólk átti sig á því að í rauninni er verið að spyrja um, eins og ég skil þetta, það fyrirkomulag sem er í dag.

Tillögur stjórnlagaráðs ganga út á nokkra breytingu á þessu og meðal annars er ákvæði, með leyfi forseta, um að „hafi forsætisráðherra ekki verið kjörinn innan tíu vikna skal Alþingi rofið og boðað til nýrra kosninga“. Þetta er eiginlega svipað ákvæði má ætla og Grikkir hafa þurft að grípa til. Þeim hefur ekki tekist að mynda ríkisstjórn og þarf því að kjósa aftur núna í júní.

Einnig segir í 90. gr. — tillaga þingmannanna kemur reyndar ekki inn á það en ég tel nauðsynlegt að minnast á það — að forsætisráðherra ákveði skipan ráðuneyta og tölu ráðherra og að „ráðherrar skulu ekki vera fleiri en tíu“. Ég er á móti því að festa í stjórnarskrá einhverja tölu á fjölda ráðherra. Það kann að vera að ríkisstjórn á hverjum tíma vilji hafa eitthvað um það að segja að ráðherrar geti verið átta, eins og nú er hugmyndin, eða jafnvel tólf ef verkefnin eru þannig eða sú sýn sem sú ríkisstjórn hefur. Það þarf því að vera einhver sveigjanleiki að mínu viti til að þetta gangi eftir.

En meginathugasemd mín, frú forseti, var að fara yfir þessa tillögu þingmanna um hver það er sem stýrir stjórnarmyndun ríkisstjórnar og sýna fram á að svolítill munur er á því sem lagt er til í tillögum stjórnlagaráðs og því sem fram kemur í tillögum þingmannanna.