140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[22:54]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er mjög mikilvægur punktur sem hv. þingmaður kemur inn á. Ef menn ná ekki saman, hvað gerist þá? Mér finnst að hv. Alþingi beri skylda til að ræða þetta út í hörgul vegna þess að slík staða má ekki koma upp. Þá eiga menn að hafa einhver úrræði, t.d. að mynda þjóðstjórn, þ.e. allir flokkar tækju þátt í stjórnarmyndun, eða að skipuð yrði embættismannanefnd og þá jafnvel eftir tilnefningum flokkanna. En mér finnst ástæða til að ræða þetta eins og margt annað.

Í allri hinni miklu umræðu um stjórnarskrána, ferlið og allt það, í haust þegar hún var lögð fram fékk ég einungis að tala í 30 mínútur samtals — ég fékk ekki lengri tíma til að ræða efnislega um stjórnarskrána. Ég hefði gjarnan viljað að þetta ákvæði ásamt fjöldamörgum öðrum yrði rætt í þaula, bæði af hv. stjórnarliðum, sem hér standa og taka ekki þátt í umræðum, og eins af stjórnarandstæðingum, sem bera uppi umræðuna, hvað við gerum ef upp kemur slík staða að ekki tekst að mynda stjórn.

Nýjar kosningar leysa ekki endilega vandann eins og hv. þingmaður benti á vegna þess að þá kemur væntanlega upp sama staðan og jafnvel skarpari. Það stefnir í það í Grikklandi núna að staðan verði enn skarpari. Ég minni svo að sjálfsögðu á páfakjörið þar sem menn eru múraðir inni þar til þeir komast að niðurstöðu.