140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[22:58]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil varpa til hv. þingmanns ákveðnum spurningum. Ég vil fyrst vekja athygli á því að margir halda að verið sé að ræða um að hafa þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrána. Sá misskilningur virðist vera mjög útbreiddur í samfélaginu að um sé að ræða þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrá. Það er mjög mikilvægt að sá misskilningur verði leiðréttur því að hér er eingöngu verið að ræða um ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um það hvort tillögur stjórnlagaráðs eigi að mynda grundvöll að endurskoðun á stjórnarskránni.

Ég held að tillögur stjórnlagaráðs séu í 113 greinum. Maður getur verið mjög sáttur við helminginn en mjög ósáttur með hinn helminginn. En það er mjög mikilvægt að fólk átti sig á því að einungis er verið að ræða ráðgefandi atkvæðagreiðslu um þessar 113 greinar, eða 114 greinar með gildistökuákvæði.

Ég vil sérstaklega víkja að þeim spurningum sem dregnar eru út úr tillögu stjórnlagaráðs þar sem segir:

„Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um að atkvæði kjósenda alls staðar að af landinu vegi jafnt?“

Nú þekkir hv. þingmaður vel til á landsbyggðinni. Við hvað er átt með þessu, að atkvæði vegi jafnt? Ég hef ásamt nokkrum öðrum þingmönnum lagt til að bætt verði við spurningu og spurt hvort aðgengi íbúanna að opinberri þjónustu eigi þá ekki að vega jafnt, þannig að jafnræði (Forseti hringir.) sé óháð búsetu. (Forseti hringir.) Hvað ætli sé átt við í þeirri setningu (Forseti hringir.) þarna sem sett er fram?