140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[23:18]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Mér þótti áhugavert að heyra það sjónarmið hv. þingmanns sem sat í þingmannanefndinni, að þær tillögur sem hér liggja fyrir séu ekki í samræmi við þær hugmyndir sem þingmannanefndin hafði, og sérstaklega að það hafi ekki komið fram hjá nefndinni að léleg stjórnarskrá hefði valdið hruninu.

Þjóðin greiðir ekki atkvæði um stjórnarskrána í haust ef þessi tillaga verður samþykkt heldur er þetta bara óbindandi skoðanakönnun um eitthvað sem verður svo breytt og verður hugsanlega að mjög breyttri stjórnarskrá. En eftir það verður þing rofið — ný stjórnarskrá er síðasta mál fyrir þingrof — og síðan kýs þjóðin nýtt þing í almennum þingkosningum. Þjóðin og það þing samþykkir svo stjórnarskrána samkvæmt ákvæðum núgildandi stjórnarskrár og við hljótum að fara að henni. Spurning mín til hv. þingmanns er þessi: Er það þá virkilega þannig, sem ég hef reyndar haldið fram, að þjóðin greiði aldrei atkvæði um stjórnarskrá sína? Hefur hv. þingmaður kynnt sér hugmyndir mínar um breytingu á 79. gr. sem er að finna á þskj. 43? Þar segir að fyrst yrði breytt því ákvæði, eingöngu 79. gr. sem fjallar um breytingu á stjórnarskránni, í þá veru að í stað þess að tvö þing þurfi til að samþykkja stjórnarskrána verði hún send í bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Það ákvæði yrði samþykkt fyrst og síðan þegar nýtt þing kemur saman geta menn innan tveggja, þriggja mánaða sent nýja stjórnarskrá í bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu.