140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[23:23]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og svörin við spurningum mínum. Svo ég útlisti þá breytingu sem ég lagði til þá gengur tillaga mín út á að í stað þess að tvö þing þurfi að samþykkja stjórnarskrána til að hún öðlist gildi, þurfi breyting á stjórnarskránni mikinn meiri hluta á Alþingi eða 4/5 og síðan þurfi mikla þátttöku í þjóðaratkvæðagreiðslu og stór hluti þjóðarinnar þurfi að samþykkja tillöguna. Þetta á að vera samkomulagsmál, ekki ágreiningsmál. Stjórnarskrá á aldrei að vera ágreiningsmál.

Þetta mundi þýða að í stað þess að öll stjórnarskráin yrði undir í næstu alþingiskosningum yrði bara þessi breyting undir. Um leið og nýtt þing kæmi saman gæti það lagt stjórnarskrá fyrir þjóðina í bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Þá hefur þjóðin greitt atkvæði um stjórnarskrána sína með bindandi hætti. Ég held að í öllum þeim tölvupósti sem ég er að fá frá fólki komi sú meining fram að fólk vill greiða atkvæði um stjórnarskrána sína en eins og fyrirhugað ferli er mun það ekki gerast.

Hv. þingmaður benti líka á að menn hefðu ekki fundið neina grein í stjórnarskrá sem olli hruninu og ég er sammála því. En það eru hins vegar margar greinar, t.d. 17 greinar um forsetann, sem hreinlega villa um. Það stendur að forseti geri samninga við erlend ríki. Það stenst ekki. 26. gr. er í mótsögn við 13. gr. sem segir að forseti láti ráðherra framkvæma vald sitt. Lætur hann þá líka ráðherra framkvæma vald sitt í 26. gr.? Núverandi stjórnarskrá er nokkuð full af mótsögnum.