140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[23:25]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Það er auðvitað eftirtektarvert að í þeim spurningum sem meiri hlutinn lagði til er engin spurning um valdsvið forsetans þrátt fyrir alla þá umræðu sem verið hefur um það, ekki síst núna í aðdraganda forsetakosninga. Að mínu viti hefði verið fullkomlega eðlilegt að fram kæmu nokkrar spurningar um það og nokkrar af þeim breytingartillögum sem hafa verið lagðar fram snúast einmitt um það.

Varðandi þá útfærslu sem hv. þingmaður Pétur H. Blöndal lýsti aðeins betur sýnist mér að hún sé nánast samhljóða þeirri leið sem prófessor Björg Thorarensen lagði fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefndina í lok mars sem leið. Ef ég má, með leyfi forseta, þá stendur í minnisblaði hennar:

„Fyrir kosningar til Alþingis vorið 2013 verði bætt nýju ákvæði við núgildandi stjórnarskrá með heimild til að víkja frá hefðbundnu breytingaferli 1. mgr. 79. gr. hennar. Þar verði mælt fyrir um að samþykkt eins þings skuli gilda sem stjórnarskipunarlög, eftir að þjóðaratkvæðagreiðsla hefur farið fram um nýja stjórnarskrá. Þessu ákvæði yrði bætt inn eftir hefðbundnu ferli með samþykki tveggja þinga og kosningum á milli. Í frumvarpi til nýrrar stjórnarskrár sem Alþingi samþykkir í kjölfarið verði síðan ákvæði sem mælir fyrir um að stjórnarskráin taki gildi eftir að hún hefur verið samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu. Hér er eðlilegt að gera kröfu um að meiri hluti kjósenda á kjörskrá samþykki hana, enda hefur aðeins eitt þing samþykkt hana. Þetta er leiðin sem farin var 1942. “ — Það var í aðdraganda lýðveldisstofnunarinnar.

Hér er klárlega samhljómur við tillögu hv. þm. Péturs H. Blöndals og kannski nánast sama útfærsla. Ferlið væri að við færum þá lagalegu leið að setja nýtt ákvæði í núgildandi stjórnarskrá í gegnum tvennar kosningar og vinnum nýja stjórnarskrá, náum um hana víðtækri sátt og þá er líklegt að hún yrði samþykkt af stórum hluta kjósenda. Þar með værum við komin með nýja stjórnarskrá sem þjóðin hefði greitt atkvæði um.