140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[23:34]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla í upphafi að nefna, þar sem ég ráðfærði mig við hv. þm. Pétur H. Blöndal, að ég sá að tillaga hans sem við ræddum og sú tillaga sem ég vísaði til í áliti Bjargar Thorarensen eiga aðeins það eitt skylt að þjóðin fær að greiða atkvæði um stjórnarskrá á einu þingi en að öðru leyti er verulegur munur á tillögunum.

Varðandi það sem hv. þm. Ásbjörn Óttarsson spurði um get ég verið sammála honum um að ég tel að meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar hefði átt að klára fyrst yfirferð um skýrsluna og koma með tillögur um breytingar. Ég er ekki viss um að á þeim tímapunkti hefði verið rétt að menn færu yfir þær og segðu: Við erum sáttir við þennan hluta eða þessa kafla og ætlum ekkert að eiga við þá en hér eru nokkrir sem við þurfum að fjalla um og ræða. Ég held að það sé mjög mikilvægt að ákveðið samhengi og samfella sé í stjórnarskránni og þess vegna verði að lesa hana alla í heild. Ef við breytum einum kafla getur það hugsanlega haft áhrif á annan. Þetta verður því að vera samfelldari vinna frekar en við séum að taka út einstakar greinar.

Ég er hins vegar sammála þingmanninum um að það hefði farið vel á því, úr því að fara á þessa ráðgefandi leið og sækja svör við spurningum til þjóðarinnar, að menn hefðu verið búnir að skilgreina betur hvaða kafla þeir væru ósáttir við, um hvaða kafla menn skortir nægilega skýr svör um eða leiðsögn um hvert eigi að fara. Það hrópar auðvitað á mann að engar spurningar hafi verið settar fram um valdsvið forsetans þegar um það er verulegur ágreiningur í samfélaginu og margir hafa talað út og suður um það efni. Það hefði verið eðlilegra á margan hátt. Ég tel að eðlilegast hefði verið að reyna að ná samfellu og sem víðtækastri sátt en ekki keyra málið áfram því þetta eru grunnlög samfélagsins.