140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[23:36]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Tillögurnar að stjórnarskipunarlögum sem komu frá stjórnlagaráði eru um 380 málsgreinar og ég tel að við þurfum að ræða þær ítarlega. Það er nefnilega þannig að ef við ætlum að senda þetta til þjóðarinnar til ákvörðunar og spyrja hvort hún vilji þessar tillögur eða ekki þurfum við fyrst að hafa velt því fyrir okkur sjálf hvort við viljum þessar tillögur eða ekki. Mér finnst það eiginlega fráleitt að hv. þingmenn ætli sér að senda spurningar til þjóðarinnar sem þeir hafa ekki einu sinni svarað sjálfir.

Hér kom fram áðan í máli hv. þm. Sigurðar Inga Jóhannssonar að sérfræðingar hefðu bent á leið til að koma því í framkvæmd að þjóðin greiddi atkvæði um stjórnarskrá sína og var leiðin svipuð þeirri sem farin var 1944.

Ég lagði fram frumvarp, sem er á þskj. 43, í október ásamt fjölda annarra þingmanna. Ég ætla að fara í gegnum það aftur, frú forseti, þó að ég sé að endurtaka mig. Það er ekki vegna þess að ég sé í málþófi heldur vegna þess að ég varð var við ákveðinn misskilning á þessu ákvæði. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Greiði minnst 2/3 þingmanna á Alþingi atkvæði með tillögu um breytingu á stjórnarskrá þessari skal leggja tillöguna innan tveggja mánaða undir atkvæði allra kosningarbærra manna í landinu í leynilegri kosningu. Greiði minnst 6/10 allra kosningarbærra manna breytingunni atkvæði sitt er hún gild stjórnarskipunarlög.“

Ef menn mundu samþykkja þessa tillögu eina sér fyrir næstu kosningar — henni yrði kannski breytt og hafður ívið lægri þröskuldar, ég viðurkenni að þeir eru ansi háir en ég geri þá kröfu að almenn sátt sé um stjórnarskrár yfirleitt — og færu svo í almennar kosningar, kosið yrði til þings, það þing mundi samþykkja hana, þá væri hægt að senda nýja stjórnarskrá með bindandi kosningu til þjóðarinnar. Þetta er lausn á þeim vanda. Þetta er ekki, eins og kom fram að sérfræðingar hefðu bent á, einskiptisaðgerð heldur yrði henni alltaf beitt.

En ég ætlaði ekki að ræða um þetta, frú forseti. Ég ætla að vona að mér gefist tækifæri til að ræða mörg önnur atriði því að ég geri kröfu til þess að við hv. þingmenn ræðum það sem við ætlum að spyrja þjóðina um.

Ég ætla að ræða samskipti þings og þjóðar eins og þau koma fram í þessu frumvarpi til stjórnarskipunarlaga eða hugmyndum stjórnlagaráðs um þau. Í fyrsta lagi er sagt í 65. gr. um málskot til þjóðarinnar, með leyfi forseta:

„Tíu af hundraði kjósenda geta krafist þjóðaratkvæðis um lög sem Alþingi hefur samþykkt. Kröfuna ber að leggja fram innan þriggja mánaða frá samþykkt laganna. Lögin falla úr gildi“ — nú, tíminn er að líða — „ef kjósendur hafna þeim, en annars halda þau gildi sínu. Alþingi getur þó ákveðið að fella lögin úr gildi áður en til þjóðaratkvæðis kemur.

Þjóðaratkvæðagreiðslan skal fara fram innan árs frá því að krafa kjósenda var lögð fram.“

Þetta er þvílíkt bíó, frú forseti, og langur tími, heilt ár. Hvað gerist ef kjósendur samþykkja tillögu Alþingis, frumvarpið? Til hvers var öll vegferðin? Ef þeir hafna henni, hvers lags vantraust er það á Alþingi? Væri ekki miklu skynsamlegra, frú forseti, að kjósendur gætu greitt atkvæði um vantraust á Alþingi í stað þess að vera með — ég veit ekki hvað ég á að kalla þetta — ferli sem er allt að því hlægilegt?

Svo í 66. gr. þar sem talað er um frumkvæði kjósenda, segir:

„Tveir af hundraði kjósenda geta lagt fram þingmál á Alþingi.“

Nú getur hver einasti þingmaður af 63 hv. þingmönnum lagt fram þingmál á Alþingi. Ef 2% kjósenda væru með tilbúið mál til að leggja fram á Alþingi er ég nærri viss um að þeir fyndu einn þingmann á Alþingi til að leggja málið fram. Þetta er því algjörlega óþarft. Ég tel miklu mikilvægara, frú forseti, að — ég kemst ekki í að ræða að tíu af hundraði kjósenda geti lagt fram frumvarp til laga, en ég mundi vilja að 15% kjósenda gætu lagt fram tillögu um vantraust á Alþingi og yrði það samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu þyrfti að rjúfa þing.