140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[23:42]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Pétur H. Blöndal er ákaflega talnaglöggur maður held ég að sé óhætt að segja. Því hef ég sérstaka ánægju af því að heyra álit hv. þingmanns á því sem ég hef verið að velta fyrir mér í dag og spurt nokkra þingmenn út í, sem er hvaða árangurs megi vænta af þeirri aðferðafræði sem hér verður gengið út frá og hvort það væri jafnvel líklegra til að gefa rétta niðurstöðu að fela skoðanakannanafyrirtæki að gera skoðanakönnun. Þar næðist þó úrtak af þjóðinni allri og þversnið af skoðunum almennings.

Hættan við það, ef sú leið verður farin sem hér er til umræðu, er að einungis lítill hluti þjóðarinnar sjái ástæðu til að taka þátt í þessari könnun eða atkvæðagreiðslu. Við höfum dæmi eins og kosningu til stjórnlagaþings. Það er einna skýrasta dæmið, enda málið þessu tengt.

Er ekki hefðbundin skoðanakönnun miklu ódýrari og einfaldari leið, sem gæfi réttari niðurstöðu en þessi leið þar sem aðeins lítill, afmarkaður hluti, sem er ekki einkennandi fyrir þjóðfélagið allt, tekur þátt? Erum við þá ekki að ráðast í óþarfaframkvæmd, sem er mjög dýr og krefst miklu meiri undirbúnings og vinnu en þörf er á? Ef við komumst að þeirri niðurstöðu að það beri að setja þessar illskiljanlegu spurningar í einhvers konar könnunarferli er þá ekki miklu ódýrari, skynsamlegri og skilvirkari leið að gera skoðanakönnun? [Hlátur í þingsal.] (Gripið fram í: … skiljanlegar spurningar?)