140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[23:50]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður sagði að það væru 380 málsgreinar í tillögum stjórnlagaráðs, ef ég hef tekið rétt eftir. Mig langar að spyrja hv. þingmann við hvað margar málsgreinar hann gerði athugasemdir, ef hann er með þá tölu á takteinum, því að ég veit að þingmaðurinn lagði mikla vinnu í það í jólafríinu að skrifa athugasemdir við einstakar greinar stjórnlagaráðs.

Ég ætlaði að spyrja þingmanninn um helstu athugasemdir en ég hugsa að ég sleppi því og biðji hann að svara því alls ekki, ég ímynda mér að tvær mínútur dugi ekki til þess. Mig langar hins vegar að spyrja þingmanninn út í það þegar hann nefnir að 15% geti lagt fram vantraust á Alþingi, á hann við 15% kosningarbærra manna eða 15% þjóðarinnar?

Ég hef ákveðnar efasemdir um það á þessari stundu — ég tek fram að ég á eftir að skoða það betur hvað þingmaðurinn á við — og er ósammála því að hafa slíkt ákvæði til staðar um að 15% kosningarbærra manna, ef það er það sem þingmaðurinn á við, geti sett fram slíka ályktun. Þá væri tiltölulega einfalt fyrir frekar lítinn hluta þjóðarinnar að skipta hér um Alþingi ótt og títt ef til þess kæmi.

Ég velti því líka upp við hv. þingmann hvort sams konar ákvæði geti þá gilt um ríkisstjórn á hverjum tíma þannig að einhver prósenta kosningarbærra manna til dæmis geti lagt fram vantraust á ríkisstjórn úr því að þingmaðurinn talar um að setja vantraust á Alþingi, eða hvort hann er með hvort tveggja þarna undir.

Ég læt þetta duga, frú forseti, í þessu fyrra andsvari. Ég ætla að spyrja aðeins um auðlindir í því næsta.