140. löggjafarþing — 101. fundur,  18. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[23:52]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Mér taldist svo til að málsgreinar tillögu stjórnlagaráðs væru 383 og eru þá fyrirsagnir meðtaldar. Ég er ekki með tölu á því hversu mörgum ég gerði tillögu um að breyta en þær eru æðimargar, ég hugsa að þær nálgist helming, þó veit ég það ekki nákvæmlega.

Þegar ég las þessar hugmyndir um samskipti kjósenda og Alþingis, í fyrsta lagi um þau 2% sem gætu lagt fram frumvörp, sem mér finnst nú vera alveg út í hött, svo hitt að tíu af hundraði kjósenda geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um lög sem Alþingi hefur samþykkt, sem leiðir til mjög langvarandi vantrausts og kreppu milli kjósenda og Alþingis, og að lokum það að tíu af hundraði kjósenda geti lagt fram frumvarp til laga á Alþingi þar sem Alþingi kæmi með gagntillögu o.s.frv., og þetta á að afgreiða innan tveggja ára — þetta er þvílíkur óstöðugleiki fram og til baka milli Alþingis og kjósenda að ég held að það yrði mjög slæmt fyrir pólitískt líf í landinu.

Í staðinn legg ég til að 15% kjósenda geti lagt til að þing verði rofið og skal sú tillaga fara í þjóðaratkvæðagreiðslu, þ.e. að fyrst þarf 15% af kjósendum að leggja það til og svo þarf meiri hluti þjóðarinnar að samþykkja það. Það að þjóðin geti fellt ríkisstjórn tel ég ekki vera gæfulegt því að sú ríkisstjórn hefði þó notið a.m.k. þingmeirihluta. Það er nefnilega möguleiki til þess í þessum tillögum að setja ríkisstjórnina af, Alþingi getur sett ríkisstjórnina af með vantrausti, þannig að ef Alþingi beitir ekki vantrausti og þjóðin kemur með vantraust kemur upp mjög undarleg staða þar sem Alþingi styður ríkisstjórnina og þá er spurningin: Mundu þeir ekki bara mynda nýja ríkisstjórn, þ.e. nákvæmlega þá sömu?