140. löggjafarþing — 102. fundur,  19. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[10:53]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi fyrri hlutann af andsvarinu um vernd fólks gegn öðrum borgurum, erum við komin út í svolitla réttarheimspeki og andsvarið verður stutt við því, vegna þess að mig langar til að svara seinni hluta spurningarinnar um hvort ég hafi kynnt mér frumvarpið um varanlega breytingu á 79. gr.

79. gr. kveður á um hvernig eigi breyta á stjórnarskrá. Ég hef kynnt mér þetta frumvarp og það er mjög athyglisvert. Þar er á nokkurn hátt verið að þrengja mjög sviðið til að breyta stjórnarskránni sem er gott, því að ég sagði áðan og stend við það að ég tel að erfitt eigi að vera að breyta stjórnarskrá. Standa verður mjög yfirvegað að breytingum á stjórnarskrá og í sátt við samfélagið, og ef við höfum svona sterkt stjórnskipunarvald eins og við höfum hér á landi núna hindrar það einmitt þetta rugl sem hægt er að fara í með breytingar á stjórnarskrá. Segjum sem dæmi ef hér kæmi til valda mjög sterkur einstaklingur sem sýndi mikla einræðistilburði, á sá aðili ekki að geta vaðið inn í stjórnarskrána og breytt henni í krafti meiri hluta. Þess vegna tel ég að það verði að vera erfitt að breyta stjórnarskránni.

Ég kynnti í ræðu minni að ég er jafnframt að skoða að leggja fram breytingartillögu að 79. gr., þar sem kveðið verði á um að fólk fái að kjósa um endanleg frumvarpsdrög að stjórnarskránni, ekki bara „eitthvað“, eins og gengið er út frá í þeirri þingsályktunartillögu sem liggur hér fyrir, það á bara að fara í einhverja þjóðaratkvæðagreiðslu í haust og kjósa um eitthvað, aðallega stefnumál flokkanna sem sitja í ríkisstjórn. Þetta er ekki endanlegt plagg og ég tel því að þjóðaratkvæðagreiðsla væri mikil tímasóun og peningasóun, því að (Forseti hringir.) hún kostar á bilinu 250–300 milljónir og þetta á allt (Forseti hringir.) saman eftir að taka breytingum.