140. löggjafarþing — 102. fundur,  19. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[10:57]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla í ræðu minni að gera tvennt að umtalsefni. Annars vegar vil ég halda áfram að ræða þær spurningar sem hér er verið að leggja upp með, efnisspurningar sem lagt er til að fari í þjóðaratkvæðagreiðslu, og hins vegar þjóðaratkvæðagreiðsluna sjálfa.

Virðulegi forseti. Ég hef áður rakið og gert grein fyrir áhyggjum mínum af því að verið sé að setja í stjórnarskrána hugtök sem eru vægast sagt loðin, merkingarlítil eða merking þeirra óskýr.

Réttindi borgaranna, sem eru tryggð með stjórnarskránni, byggjast á því að þær reglur sem þar eru settar fram séu skýrar, menn geti treyst þeim og á þeim sé sameiginlegur skilningur í samfélaginu og meðal þjóðarinnar um hvað þær þýða og hvaða vernd er fólgin í þeim. Stjórnarskráin er fyrst og síðast plagg sem er orðið til til að vernda borgarana gegn ofríki ríkisvaldsins og hvern fyrir öðrum. Það að setja í stjórnarskrána óljós hugtök grefur undan þeirri vernd.

Ég hef sérstaklega bent á það hversu óæskilegt og hættulegt það er fyrir samfélag okkar, sem byggir svo mikið á auðlindanýtingu, að setja ákvæði í stjórnarskrána, eins og hér er lagt til í spurningu og reyndar líka í hugmyndum varðandi þær breytingar sem lagðar voru til af hálfu stjórnlagaráðs, með orðalaginu „þjóðareign á auðlindum“. Eitt er eignarréttarákvæðið sem hér er verið að ræða. Hvað þýðir eign? En það sem er ekki síður mikilvægt og mun valda vandamálum er ef við lýsum yfir þjóðareign á öllum náttúruauðlindum í stjórnarskrá. Það er því miður vondur siður og gamall í þinginu að setja í lög ýmis hugtök sem þarfnast síðan nánari skýringa. Um það hafa lögspekingar skrifað og fundið að því en það er miklu alvarlegra þegar slík hugtök fara í stjórnarskrána. Í stjórnarskrána eiga ekki að fara nein hugtök sem ekki eru alveg skýr.

Mig langar að nefna hugtakið þjóð. Er verið að segja að um sé að ræða þjóðareign og allir sem tilheyra viðkomandi þjóð hafi þar með einhvers konar eignarréttarlega kröfu á afrakstur af nýtingu auðlinda? Þýðir þetta það? Kannski ekki, kannski ætlast menn ekki til að þetta þýði það, en þetta þarf að vera alveg skýrt. Það þarf að taka skýrt á þessu þannig að menn viti nákvæmlega hvað um er að ræða.

Ég nefndi það í ræðu minni áðan að spurningin væri þessi: Mun einstaklingur af íslensku bergi brotinn, sem tilheyrir hinni íslensku þjóð en býr langdvölum erlendis, (PHB: Aldrei búið hér.) — jafnvel aldrei búið hér á landi, kallar hv. þm. Pétur H. Blöndal — eiga stjórnarskrárvarða kröfu á því að njóta með einhverjum hætti afrakstursins af þeim auðlindum sem nýttar eru hér á landi? Eða er um að ræða einstaklinga þessarar þjóðar sem búsettir eru hér á landi? Er verið er að tala um það?

Það eru vafaatriði af þessu tagi sem ekki er leyfilegt að setja í stjórnarskrá og skapa með því óvissu. Ég get vel skilið að menn hafi gaman af að leika sér með hugtök á kaffihúsum eða í almennri umræðu en þegar kemur að stjórnarskránni hvílir sú skylda á þingmönnum öllum að vanda þessa vinnu á þann veg að hugtökin séu skýr.

Enginn getur haldið því fram að þjóð sé skýrt hugtak. Fjöldi lögspekinga hefur tjáð sig um hugtakið og bent á hversu meingallað það er. En, frú forseti, það er hægt að leysa þennan vanda á mjög einfaldan hátt. Það er hægt að breyta orðinu þjóðareign í ríkiseign, jafnvel með orðalaginu „ævarandi ríkiseign“ eða „ævarandi ríkiseign með ákveðnum skilyrðum“. Það er með öðrum orðum hægt að skilgreina þetta þannig að þetta hafi skýra merkingu.

Hvers vegna vilja þeir hv. þingmenn sem standa að þessari tillögu ekki nota orðið ríkiseign? Er það vegna þess að það hljómar betur að tala um þjóðareign þegar er í raun og veru verið að tala um ríkiseign?

Ef við segjum að allar auðlindir eigi að vera eign ríkisins kemur augljóslega ekki upp sá vandi sem ég lýsti hér áðan, þ.e. menn af íslensku bergi brotnir sem búa erlendis eiga þar með ekki kröfu á auðlindanýtingu þrátt fyrir að vera hluti af íslenskri þjóð. Svona atriði þarf að vanda miklu betur. Það er ekki boðlegt fyrir Alþingi Íslendinga að senda þau frá sér í þjóðaratkvæðagreiðslu og ætlast til að þjóðin taki afstöðu til þeirra.

Frú forseti. Ég vil nota þær mínútur sem ég á eftir í þessari ræðu til að reifa þær skoðanir mínar að blekkingaleikur sé fólginn í því að senda þessar tillögur í þjóðaratkvæðagreiðslu og láta að því liggja í umræðu að til standi að kjósa um stjórnarskrána. Ég hef á undanförnum sólarhringum fengið fjöldann allan af tölvupóstum og smáskilaboðum í síma sem lúta öll að því að sendandinn krefst þess að fá að greiða atkvæði um stjórnarskrána. Þessi þingsályktunartillaga er ekki tillaga um að greidd verði atkvæði um stjórnarskrána. Það er ekki lagt upp í þessari tillögu. Lagt er til að haldin verði ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um hvort leggja eigi þetta plagg til grundvallar breytingum. Það er ekki verið að kjósa með eða á móti þessum stjórnarskrártillögum.

Virðulegi forseti. Hvernig fer ef niðurstaða þessarar ráðgefandi atkvæðagreiðslu um það hvort leggja eigi þetta plagg til grundvallar breytingum á stjórnarskrá verður mjög jöfn, 49% segja já og 51% nei, og kosningaþátttakan verður, skulum við segja, 70%. Hvaða leiðbeining er fólgin í því fyrir Alþingi Íslendinga? Þýðir sú niðurstaða að við eigum að fara að tillögunum um það að ríkisstjórnin sé stundum fjölskipað stjórnvald og stundum ekki? Þýðir það að við eigum ekki að gera breytingar á 26. gr. stjórnarskrárinnar eins og hún er nú, um málskotsrétt forsetans? Hvað mun sú niðurstaða þýða? Það er einmitt þetta sem gerir að verkum að ekki er hægt fyrir hv. Alþingi að láta málin ganga svona fyrir sig.

Ég verð að segja eins og er, virðulegi forseti, að afgreiða það í þingsal og annars staðar í þjóðfélaginu sem ódýrt málþóf að þingmenn skuli gera athugasemdir og fari í gegnum þessa hluti lið fyrir lið, að það sé allt stimplað sem málþóf sprottið af annarlegum hvötum vegna þess að menn vilji ekki leyfa þjóðinni að greiða atkvæði, finnst mér ljótur blekkingaleikur. Tillagan gengur einfaldlega ekkert út á að þjóðin fái að greiða atkvæði um stjórnarskrána.

Það er ekki með neinum hætti verið að undirbúa þingið til að taka á móti niðurstöðum úr atkvæðagreiðslu eins og ég lýsti hér áðan, sem væri það jöfn að ekki væri hægt að lesa út úr henni skýran vilja.

Þetta eru gallarnir, frú forseti, og enn er tími til að lagfæra þá (Forseti hringir.) og vinna á þann veg að sómi sé að fyrir Alþingi Íslendinga.