140. löggjafarþing — 102. fundur,  19. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[11:07]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Illuga Gunnarssyni fyrir að koma fram með áhugaverða punkta. Hann hóf mál sitt á því að stjórnarskráin þyrfti að vera auðskiljanleg og skýr.

Ég vil því spyrja hv. þingmann um þær breytingartillögur sem formaður Framsóknarflokksins, hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, hefur lagt fram. Þar spyr hann einfaldrar spurningar, þar sem þetta er jú ráðgefandi fyrirspurn til þjóðarinnar um það hvernig vinnan eigi síðan að halda áfram, hvort mikilvægt sé að ákvæði stjórnarskrárinnar séu auðskiljanleg. Er hv. þingmaður ekki sammála þeirri breytingartillögu sem þar kemur fram?

Jafnframt leggur hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson fram aðra tillögu er varðar hvort ekki sé mikilvægt að ákvæði stjórnarskrárinnar séu framkvæmanleg. Í nokkrum ræðum hér í gær veltu menn fyrir sér hvort ákveðnir þættir í tillögum stjórnlagaráðs — þó að þeir hljómi vel og hugtökin séu falleg, eins og hv. þingmaður orðaði það — væru í reynd framkvæmanlegir.

Hv. þingmaður vék einnig að ákvæði um þjóðareign á auðlindum og ég ætlaði að spyrja hann út í það ef ég hef tíma til, annars nota ég síðara andsvar mitt í það. Það kom til dæmis fram á fundi atvinnuveganefndar í gær, þangað sem fulltrúar Landverndar komu, að mjög mikilvægt væri að virða eignarrétt manna á eigum sínum. Mér þótti það mjög áhugaverður punktur en þeir voru í því sambandi að vísa til neðri hluta Þjórsár. (Forseti hringir.) Það er hægt að taka önnur dæmi þar sem eignaraðilar hafa (Forseti hringir.) áhuga á að virkja eigin bæjarlæk, hvort þeir hafi þá ekki líka varðan eignarrétt (Forseti hringir.) til þess. Er þetta ákvæði ekki nægilega skýrt í dag þegar allir (Forseti hringir.) vísa til þess hvort sem þeir eru náttúruverndarsinnar eða nýtingarsinnar?

(Forseti (ÁRJ): Forseti vill minna hv. þingmenn á að virða tímamörk.)