140. löggjafarþing — 102. fundur,  19. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[11:10]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Spurningar þær sem hv. þingmaður vísar til ættu auðvitað ekki að vera uppi. Það ætti ekkert að þurfa að spyrja að því hvort nauðsynlegt sé að ákvæði í stjórnarskrá séu skýr og skiljanleg. Það ætti ekkert að þurfa að spyrja að því hvort ákvæði í stjórnarskrá séu framkvæmanleg. En því miður, þegar drögin frá stjórnlagaráði hafa verið lesin, er ástæða til að spyrja slíkra spurninga.

Það varpar ljósi á þann galla sem er á málinu öllu, að það er vanbúið. Ekki er við fólkið sem tók þátt í starfi stjórnlagaráðs að sakast, því var ætlaður mjög skammur tími til þess verkefnis að skrifa heila stjórnarskrá sem svo augljóslega, ef vinna átti það á þann veg sem lagt var upp með, hefði tekið miklu lengri tíma. Fyrir vikið erum við í þeirri stöðu að leggja á til þessi drög og taka afstöðu með þeim eða á móti á sama tíma og fyrir liggur sá vilji í þinginu að í gang fari vinna við að sníða lagatæknilega agnúa af þeim, eins og það er kallað.

Virðulegur forseti. Lagatæknilegir agnúar í tillögum að breytingum á stjórnskipan landsins — átta hv. þingmenn sig ekki á því hversu illa það hljómar og hvernig sagan mun dæma þá sem fara fram með þessum hætti í jafnmikilvægu máli og stjórnarskrá hvers lands er?