140. löggjafarþing — 102. fundur,  19. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[11:17]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem ég átti við var þetta: Það er allt í lagi að menn í almennri umræðu, hvort sem þeir sitja á huggulegum kaffihúsum eða heima í stofu eða eru jafnvel í almennum umræðum í þingsalnum, leyfi sér að nota hugtök ekkert sérstaklega skýrt. Ég geri enga athugasemd við það, þannig fer oft umræðan fram. En þegar nota á hugtök sem grundvallarhugtök í stjórnarskrá landsins duga ekki slíkar aðferðir, þá dugir ekki slík aðkoma eða nálgun. Þá verða menn að hafa alveg á hreinu við hvað er átt og hvaða afleiðingar það hefur fyrir þjóðskipulagið allt að setja slík hugtök inn í stjórnarskrána.

Ástæðan fyrir því að ég benti á þá lausn sem hv. þingmaður var að byrja að nefna í andsvari sínu, að nota frekar orðalagið ríkiseign, helgast af tvennu. Annars vegar er einmitt rætt um það í greinargerð stjórnlagaráðsins hvað þjóðareignarhugtakið þýðir og augljóst að þar hugsa menn þetta sem ríkiseign. Hjá mörgum hv. þingmönnum hefur komið fram, m.a. hjá hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur, að það er sá skilningur sem þeir leggja í hugtakið þjóðareign. Mín skoðun er sú að ef þetta er nálgunin sé miklu hreinlegra og eðlilegra að segja að um sé að ræða ríkiseign því að það er hún sannarlega. Eignin verður á forræði ríkisins. Þá stöndum við ekki frammi fyrir þeim vanda sem við hv. þingmaður erum að ræða hér: Hvað er þjóð? Þá er bara um að ræða eignir sem ríkið á og stjórnmálamennirnir ráðskast með þær. Síðan geta menn velt því fyrir sér hvort það sé heppilegt fyrir eitt samfélag að auka svo mjög á völd stjórnmálamannanna að allar náttúruauðlindir, bæði þær sem eru til og þær sem eru ófundnar, verði eign (Forseti hringir.) ríkisins og þar með í höndum stjórnmálamanna.