140. löggjafarþing — 102. fundur,  19. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[11:19]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Mér finnst ræða hv. þingmanns verða sífellt óhuggulegri, vegna þess að hann er að tala um að ríkið eigi þá að eiga allar auðlindir. Það á eftir að skilgreina hvað er auðlind. Ég lít til dæmis þannig á að grasið sem sprettur á túnum bænda sé auðlind, það verður eitthvað til úr engu. Afrétturinn er auðlind o.s.frv. Í raun er hv. þingmaður að segja að fólk sem hugsar á þennan hátt gæti látið ríkið yfirtaka allar bújarðir. Það að geta búið í Reykjavík á lóð er líka auðlind af því að ef ég gæti ekki búið á lóð í Reykjavík yrði ég að fara eitthvað annað. Þetta er stórhættuleg hugsun. Sjálfstæðisflokkurinn hefur staðið vörð um frelsi einstaklingsins, aðallega gagnvart ríkinu. Mér finnst þessi umræða komin út á mjög hættulegar brautir og tel að hv. þingmaður ætti ekki að stinga upp á því að ríkið ætti (Forseti hringir.) landið og miðin.