140. löggjafarþing — 102. fundur,  19. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[11:26]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Að sumu leyti má þá túlka það þannig — ég ætla að vona að það sé ekki útúrsnúningur — að sagan, nýtingarsagan eins og hv. þingmaður orðar það, geti verið einhvers konar grunnur að því að leiða í jörð skilgreiningu á því hvað geti verið þjóðareign eða sameign þjóðarinnar, og hins vegar væntanlega hvernig við förum með auðlindir sem eru takmarkaðar að einhverju leyti. Vindurinn er væntanlega ótakmörkuð auðlind sem … (IllG: Því er nú verr.) Já, því er nú verr, því að hann blæs og blæs, okkur oft til mikilla ama. Annað á kannski við um fiskinn til dæmis eða tíðnisvið sem er kannski ekki óendanleg auðlind eða endurnýjanleg. Ég tek hins vegar fram að ég er sammála því sem hv. þingmaður sagði um jarðir bænda og að einstaklingar hefðu oft og tíðum verið (Forseti hringir.) leiðandi í nýtingu á auðlindum.