140. löggjafarþing — 102. fundur,  19. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[11:28]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Við ræðum tillögu til þingsályktunar um ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um tilteknar tillögur, annars vegar stjórnlagaráðs sem liggja hér í viðamikilli skýrslu í 113 greinum og hins vegar þá viðbótartillögur sem bæði eru lagðar fram af meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og einnig af einstökum þingmönnum.

Stjórnarskráin er náttúrlega einn af hornsteinum hvers samfélags og þess vegna skiptir miklu máli hvernig staðið er að því bæði að byggja hana upp, hvaða hugmyndafræðilega sýn er þar á bak við, og einnig þá hvernig hún er unnin.

Í upphafi máls míns vil ég leggja áherslu á að ég er mjög fylgjandi þjóðaratkvæðagreiðslum. Ég tel að það eigi að gera þjóðaratkvæðagreiðslur virkar, mun virkari en þær hafa verið hér, og að þjóðin eigi sem oftast að koma með beinum hætti að því að leggja mat á einstök mál sem eru uppi á hverjum tíma. Við höfum nefnt Sviss í þessu sambandi þar sem er mjög víðtæk notkun þjóðaratkvæðagreiðslna enda veit ég að lýðræðið þar stendur mjög sterkum fótum. Ég minnist þess ekki að hafa heyrt þar talað um mikið oddvitaræði eða foringjaræði eða þvingunaraðgerðir af hálfu stjórnvalda í þeim efnum þar sem hægt er að skjóta málum miklu oftar til þjóðarinnar. Því oftar sem við getum skotið málum til þjóðarinnar sem eru jafnvel deilumál í þinginu, því sterkara og virkara verður lýðræðið. Þess vegna legg ég áherslu á það.

Ef við lítum aðeins á þessar tillögur vil ég bara nefna nokkur atriði. Það er rétt að athuga fyrst hvernig aðdragandinn var að þessu. Jú, það var ákveðið að efna til kosninga á fulltrúum til stjórnlagaþings. Þegar þeirri kosningu lauk reyndust aðeins 35% af þjóðinni hafa tekið þátt í henni. Það gerir strax þennan feril ótrúverðugan, að svo lítill hluti þjóðarinnar skuli taka þátt. Það sem líka vakti athygli var að aðeins örfáir komu af landsbyggðinni sem var hægt að telja sem slíka. Nánast einsleitur hópur var kosinn inn á stjórnlagaþing af afmörkuðum landshlutum með afmarkaðan bakgrunn þar. Hvort sem okkur líkar betur eða verr, og okkur líkar það náttúrlega ekki vel, er þjóðin orðin talsvert skipt, annars vegar á höfuðborgarsvæðinu, stórþéttbýlissvæðinu, og hins vegar á landsbyggðinni.

Í aðfaraorðum að tillögu stjórnlagaráðs segir, með leyfi forseta:

„Við sem byggjum Ísland viljum skapa réttlátt samfélag þar sem allir sitja við sama borð. Ólíkur uppruni okkar auðgar heildina og saman berum við ábyrgð á arfi kynslóðanna, landi og sögu, náttúru, tungu og menningu.“

Strax í þessum upphafsgreinum er lögð áhersla á að þeir sem koma að því að móta tillögur um stjórnarskrána og breytingar á henni hljóta að eiga að koma frá sem flestum svæðum landsins eða vera fulltrúar sem flestra þjóðfélagshópa. Aðeins örfáir fulltrúar landsbyggðarinnar eru þó í þessari vinnumeðferð enda ber skýrsla og vinna nefndarinnar þess mjög greinileg merki að þeir sem þarna unnu hafa mjög takmarkaða almenna þekkingu á því sem er úti um land.

Hvað þýðir til dæmis réttlátt samfélag? Er það réttlátt samfélag sem býr þannig að heilbrigðisþjónustu að hún er skorin stórlega niður víða um land? Ýmsir íbúar landsins verða að fara hundruð kílómetra til að ná sér í lágmarksheilbrigðisþjónustu. Er það eitthvert réttlæti? Hafa allir þegnar landsins sama möguleika á að hafa áhrif á ákvarðanatöku í eigin málum? Hvar fer stóri hluti ákvarðanatökunnar fram? Hvar eru nefndarfundir af hálfu stjórnsýslunnar haldnir og hvernig er hægt að taka þátt í þeim? Jú, þeir eru haldnir á höfuðborgarsvæðinu fyrst og fremst og ef fulltrúar annars staðar á landinu, hvort sem er frá Vestfjörðum, Norðurlandi, Austurlandi eða Suðurlandi, eiga að fá að taka þátt í þeim með eðlilegum hætti er það bæði kostnaðarsamt og tímafrekt. Því fer fjarri að þarna sé hægt að tala um eitthvert jafnrétti í því að fá að taka þátt í stjórnsýslu landsins á hinum mörgu stigum.

Við erum í allt of ríkum mæli orðin skipt upp í tvö þjóðfélög, annars vegar í þéttbýlissamfélag hér og hins vegar dreifbýlissamfélag sem fær ekki að taka þátt með sama hætti og aðrir í að byggja upp og hafa áhrif á stjórnsýsluna.

Bara dæmigert eitt, þegar fjárlög voru afgreidd fyrst eftir hrun og menn deildu um hvernig þau kæmu niður, hvort þau mismunuðu sérstaklega landsbyggðinni, heilbrigðisþjónustu, menntun og öðrum grunnþáttum samfélagsins sem er miklu viðkvæmara fyrir breytingum úti um land, var þess krafist að gerð yrði úttekt á áhrifum fjárlaganna á byggða- og búsetustrúktúr í landinu. Sú úttekt, það ég veit, liggur ekki enn fyrir og það eru komin tvenn eða þrenn fjárlög síðan. Var þetta þó samþykkt að mig minnir af hálfu Alþingis, a.m.k. af hálfu fjárlaganefndar.

Annað sem vert er að huga að í þessu er ekki aðeins spurningarnar sem lagðar eru fyrir heldur líka það sem ekki er spurt um. Það er kannski miklu alvarlegra sem ekki er spurt um eða það sem er útilokað að spyrja um. Til dæmis er sérstaklega tekið fram í 67. gr. að ekki megi krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu um tiltekna þætti, fjárlög, fjáraukalög og lög sem framfylgja þjóðréttarskuldbindingum og ekki heldur um skattamálefni eða ríkisborgararétt. Er kannski verið að búa þennan ramma að stórum hluta utan um þessar setningar? Viljum við ekki fá að eiga rétt til þess að hafa þjóðaratkvæðagreiðslu um þjóðréttarskuldbindingar? Það stendur þó í aðfaraorðunum að Ísland sé frjálst og fullvalda ríki. Er það ekki fyrsti réttur þjóðfélagsins, hvers einstaks samfélagsþegns, að fá að standa vörð um fullveldi þess? Það er að minnsta kosti mitt mat og þess vegna tel ég alveg skilyrðislaust að í þeim spurningalista sem lagður verður fram eigi að vera spurning um hvort þjóðin vilji ekki áfram hafa möguleika á því að taka til þjóðaratkvæðagreiðslu framsal á fullveldi sem felst í því að við gefum frá okkur það að mega krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu um þjóðréttarskuldbindingar.

Mér finnst þetta eitt alvarlegasta málið í þessu. Ég vil fá fleiri spurningar sem lagðar eru fyrir þjóðina um það hvernig hún vill sjá sína stjórnarskrá, ekki færri. Það virðist vera allt of mikið markmiðið í þessari þingsályktunartillögu sem við erum að fjalla um frá meiri hluta nefndarinnar að leggja áherslu á hvað megi ekki kjósa um frekar en hvað megi kjósa um. Við hv. þingmenn Atli Gíslason, Lilja Mósesdóttir, Ásmundur Einar Daðason og Telma Magnúsdóttir lögðum fram breytingartillögu sem hnykkir á þessu. Í henni segir, með leyfi forseta:

„Vilt þú að tryggt sé í stjórnarskrá jafnræði allra landsmanna þegar kemur opinberri þjónustu, óháð búsetu?“

Mér finnst alveg sjálfsagt að þjóðin fái að segja mat sitt á þessu því að það er ekki jafnræði í dag. Og hvernig eigum við að framfylgja því ef það er ekki (Forseti hringir.) skýrt kveðið á um það í stjórnarskrá? Ég vil fleiri spurningar en færri (Forseti hringir.) til að leggja fyrir þjóðina í þessum efnum, frú forseti.