140. löggjafarþing — 102. fundur,  19. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[11:46]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þetta held ég að sé einmitt kjarni málsins í því hvernig á að tryggja jafnrétti og jafnræði fólks, óháð búsetu, til grunnþjónustu. Það finnst mér að eigi að vera veigamikill grunnur í stjórnarskrá, jafnrétti og jafnræði. Hinn þátturinn er fullveldi og fullveldisrétturinn, sjálfsákvörðunarréttur þjóðarinnar. Þetta eru þeir tveir grunnþættir sem eiga að vera. Við heyrðum nýverið frá forsvarsmönnum sveitarfélaga á Austurlandi um stöðu í heilbrigðisþjónustunni þar sem stóran hluta á árinu eru jafnvel nokkur hundruð kílómetrar til næsta læknis. Ég held að í okkar samfélagi verði það ekki talin fullnægjandi heilbrigðisþjónusta.

Gallinn við þær tillögur frá stjórnlagaráði sem við erum hér að fjalla um er að sá hópur hefur að langmestu leyti verið, eðlilega, bundinn við það umhverfi sem hann þekkir fyrst og fremst. Sjónarmið þeirra sem búa vítt og breitt um landið og krafa til jafnræðis til aðgengis að þjónustu er ekki virt í dag. Það er kannski mikilvægasti þátturinn sem við þurfum að hyggja að.

Frú forseti. Ég ítreka að við höfum flutt breytingartillögu sem ég kynnti áðan um að þjóðin verði spurð: Viljið þið ekki í alvöru að þetta jafnrétti sé tryggt í stjórnarskrá?

Ég ítreka að ég vil hafa þjóðaratkvæðagreiðslur um sem flesta þætti og þá á ekki að beita þeim eins og hér er gert í fyrirliggjandi tillögum frá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd með því að útiloka aðra þætti, eins og til dæmis að (Forseti hringir.) þjóðin megi segja sína skoðun á því hvort það á að kjósa (Forseti hringir.) um þjóðréttarskuldbindingar eða ekki. Það er alveg fráleitt, (Forseti hringir.) það á einmitt að kjósa um sem flest.