140. löggjafarþing — 102. fundur,  19. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[12:00]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Ég get tekið undir ýmislegt sem kom fram í ræðu hv. þingmanns, meðal annars að nýta beri þann mikla áhuga sem á stjórnarskránni er, sem er góður, vissulega. En það sem ég er að benda á er að út frá ákveðnum staðreyndum sem liggja fyrir og tíma, verklagi, hallast ég að því að við þurfum með einhverjum hætti að reyna að koma málinu úr þeirri stöðu sem það er í núna og horfa til þess að áfangaskipta því. Það er mín skoðun að tíminn sem við höfum til að vinna að breytingum á stjórnarskránni hér í þinginu — öll grunnvinnan er góð, við eigum bara eftir hina efnislegu umræðu í þinginu og vinnuna þar, það er mín skoðun að þingið hafi sleppt úr allt of löngum tíma til að vinna sína hluti og tíminn sé forhlaupinn.

Varðandi misskiptinguna og það sem hv. þingmaður nefndi um hana er alveg hárrétt. Það er viðvarandi umræða líka um þá þætti. Ég vil nefna síðast varðandi áform um veiðileyfagjald, þar er hugmyndin sú að skipta því með einhverjum hætti á milli ríkisins annars vegar og sveitarfélaga hins vegar. Þá háttar svo til að á sama tíma og menn halda því fram að fiskstofnarnir séu sameign þjóðarinnar voru uppi hugmyndir um að skipta veiðileyfagjaldinu með þeim hætti að sveitarfélög eða íbúar, hluti þjóðarinnar sem bjó á Selfossi eða Egilsstöðum, ættu ekki að fá krónu í andvirði af veiðileyfagjaldi. Það þýddi þá að þeir ættu ekki sinn þátt í þessu þannig að skiptin á gæðunum verða alltaf umdeild og vandrataður meðalvegurinn í því.

Ég held að full ástæða sé til að taka undir varnaðarorð hv. þingmanns um misskiptingu gæða í landinu. Ég deili skoðunum með honum í þeim efnum.