140. löggjafarþing — 102. fundur,  19. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[12:12]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Okkur þingmönnum hafa borist æðimörg skeyti utan úr bæ og í þeim flestum segir svo:

„Kæri þingmaður. Nú stefnir enn einu sinni í að Alþingi neiti þjóðinni um að segja hug sinn um nýja stjórnarskrá — að þessu sinni með fundartæknilegum aðferðum.“

Þarna kemur fram mjög athyglisvert sjónarmið hjá þessum hv. kjósanda, sem er kjósandi í Suðvesturkjördæmi, ég ætla ekki að nefna nafnið. Hann telur að til standi að kjósa, eða segja hug sinn, um nýja stjórnarskrá. Það hefur komið fram að til stendur að breyta þessari stjórnarskrá þannig að þetta viðhorf kjósandans er byggt á misskilningi. Hann er ekkert að fara að segja hug sinn um nýja stjórnarskrá, heldur um grunn að stjórnarskrá sem meira að segja stendur til að breyta á meðan kjósandinn greiðir atkvæðið.

Þess vegna tel ég mjög mikilvægt, frú forseti, að menn átti sig á því hvað stjórnarskrá er og til hvers hún er. Mjög margir telja að það sem gerðist eftir hrunið, að breytingar á stjórnarskrá muni laga allar þær hörmungar sem fylgdu í kjölfarið. Ég tel að menn þurfi að átta sig á því hvað stjórnarskrá er.

Stjórnarskrá er undirstaðan undir allt ríkisvaldið. Í stjórnarskránni er tekið fram hvernig löggjafarvaldið skuli kosið og hvernig það skuli starfa, þ.e. Alþingi. Í stjórnarskránni er tekið fram hvernig framkvæmdarvaldið skuli starfa og í stjórnarskránni er tekið fram hvernig dómsvaldið skuli starfa. Stjórnarskráin er undirstaða undir ríkið og auk þess eru í henni fjölmörg ný ákvæði um mannréttindi. Stjórnarskráin er því undirstaðan undir þrískiptingu ríkisins og þess vegna er í eðli sínu óeðlilegt að Alþingi, eins og núverandi ákvæði kveður á um sem hluti af ríkinu, tvö sitjandi þing, ákveði stjórnarskrána. Það er óeðlilegt.

Ég tel miklu skynsamlegra, og hef lagt fram tillögu um það, að þjóðin greiði atkvæði í bindandi atkvæðagreiðslu um allar breytingar á stjórnarskrá. Ég held að menn ættu að skoða þá hugmynd mjög ítarlega, sérstaklega þeir sem eru að berjast fyrir þessari stjórnarskrá en hafa tekið lítinn þátt í umræðunni, þ.e. hv. þingmenn Hreyfingarinnar, hv. þingmenn Birgitta Jónsdóttir, Margrét Tryggvadóttir og Þór Saari, sem hafa lýst því yfir að þau séu að gera samninga við hina góðu eða slæmu ríkisstjórn til að ná þessu máli fram.

Ég tek undir það sem menn hafa sagt, stjórnarskrá á að vera auðskiljanleg og framkvæmanleg. Það er grundvallaratriði að almenningur skilji hvaða réttindi stjórnarskráin tryggir honum, hann á ekki að þurfa lögfræðiálit eða lærðar lögfræðiritgerðir til að skilja það. Hins vegar hefur nokkur umræða spunnist um ríkið, þetta sem stjórnarskráin stendur undir, og margir líta svo á að ríkið sé eitthvað sjálfgefið. Ríkið er ekki sjálfgefið. Þegar Ísland var numið á sínum tíma var ekkert ríki hér, menn bara námu land. Síðan myndaðist fljótlega löggjafarvald með þingum hingað og þangað og svo má segja að 930, þegar Alþingi var stofnað, hafi þjóðveldið myndast. Þá voru tveir þættir ríkisins til staðar, dómsvaldið og löggjafarvaldið, en ekki framkvæmdarvaldið. Þess vegna fór allt í bál og brand. Það sýnir hve mikilvægt er að átta sig á hlutverki stjórnarskrár og ríkis.

Ég tel að ríkið sé til þess að vernda mannréttindin sem stjórnarskráin tryggir, mannréttindi sem verja fólk fyrst og fremst gegn öðru fólki og í öðru lagi þar sem fólk á kröfu á annað fólk, eins og börn eiga kröfu á framfærslu frá foreldrum sínum og öryrkjar og aldraðir og þeir sem eru minni máttar eiga kröfu á samfélagið um framfærslu. Mér finnst að menn þurfi að átta sig á þessu þegar þeir tala um að segja hug sinn um nýja stjórnarskrá eins og þessi kjósandi ræddi um. Ég tel mjög mikilvægt að menn átti sig á hlutverki og tilgangi stjórnarskrárinnar.