140. löggjafarþing — 102. fundur,  19. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[12:19]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það eru ákveðnir meinbugir í núgildandi stjórnarskrá. Ég nefndi það strax og ég kom á þing, fyrir langalöngu því miður, að það væru gallar í stjórnarskránni og það var löngu fyrir hrun. Sérstaklega er það í ákvæðunum um forsetann þar sem stjórnarskráin er hreinlega villandi. Í stjórnarskránni segir að forseti geri samninga við erlend ríki. Það er ekki rétt, hann gerir aldrei samninga við erlend ríki. Í stjórnarskránni segir að forseti skipi ráðherra. Það er heldur ekki rétt, það eru stjórnarmyndunarviðræður þar sem ráðherrarnir eru ákveðnir og það myndast meiri hluti á Alþingi sem ákveður skipan ráðherra.

Það eru fjöldamörg atriði í núgildandi stjórnarskrá sem eru ekki rétt og þar er forsetinn sýndur hafa völd sem svo aftur eru tekin til baka í 13. gr. í stjórnarskránni þar sem segir að forseti láti ráðherra framkvæma vald sitt. Þar kemur upp þessi skrýtna umræða um 26. gr. sem varð tilefni mjög lærðra ritgerða af því að þar gat forsetinn gert eitthvað en hann átti samkvæmt 13. gr. að láta ráðherra framkvæma vald sitt.

Ég sé ekkert samhengi milli hrunsins og stjórnarskrárinnar og menn hefðu átt að gefa sér góðan tíma til að breyta stjórnarskránni. Hins vegar er mjög ánægjulegt að sjá þann mikla áhuga sem menn hafa á stjórnarskránni og breytingum á henni og hugsanlega má nota þann meðvind til að gera nauðsynlegar breytingar. Þau drög sem við erum að ræða um að senda til þjóðarinnar í atkvæðagreiðslu eru svo sundurlaus, það eru svo margir gallar og svo margir kostir að það yrði fráleitt að senda drögin þannig til þjóðarinnar.