140. löggjafarþing — 102. fundur,  19. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[12:28]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Varðandi forgangsröðun Alþingis í málinu og …

(Forseti (ÁI): Þingmaðurinn er beðinn að beina orðum sínum til forseta.)

Ég biðst innilega afsökunar, frú forseti.

Frú forseti. Varðandi forgangsröðun mála hjá Alþingi höfum við í stjórnarandstöðunni margoft bent á það að ríkisstjórnin er að gera eitthvað allt annað en hún þyrfti að vera að gera. Á Íslandi vantar atvinnu. Það er númer eitt, tvö og þrjú. Fólk getur ekki borgað af lánunum sínum, það getur ekki borgað framfærslu heimila sinna vegna þess að það skortir atvinnu. Það er orðið atvinnulaust eða atvinna hefur minnkað og þetta er forgangsröðun númer eitt, tvö og þrjú, það að skapa forsendur fyrir því að hér myndist atvinna. Til þess þarf að auka fjárfestingu og það þarf að fara út í verkefni sem eiga ekki bara að vera orðin tóm, að ríkisstjórnin lýsi því yfir að nú ætli hún að skapa 10 þús. störf. Hún er búin að gera það svo oft og störfin hafa ekkert myndast.

Forgangsröðunin er mjög slæm, hér er verið að ræða um stjórnarskrá sem má gjarnan bíða í fimm eða tíu ár, mín vegna má það bíða í fimm eða tíu ár, það gerist ekkert stórkostlegt á meðan. Tíma og orku er eytt í aðildarumsóknina að Evrópusambandinu og fjöldamörg gæluverkefni eru hér á fullu alla daga og á meðan bíða heimilin eftir úrlausnum.

Það mál sem ég hef flutt er örstutt, frú forseti. Í því frumvarpi stendur:

„Greiði minnst 2/3 þingmanna á Alþingi atkvæði með tillögu um breytingu á stjórnarskrá þessari skal leggja tillöguna innan tveggja mánaða undir atkvæði allra kosningarbærra manna í landinu í leynilegri kosningu. Greiði minnst 6/10 allra kosningarbærra manna breytingunni atkvæði sitt er hún gild stjórnarskipunarlög.“

Þetta er tilraun og hugmynd til að gera það að verkum að þjóðin geti greitt bindandi atkvæði um stjórnarskrána sína. Það eru reyndar mjög háir þröskuldar, þarf mikla samstöðu, en í því ferli sem nú er um að ræða er ekki svo. Þjóðin mun ekki greiða atkvæði um stjórnarskrána sína.