140. löggjafarþing — 102. fundur,  19. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[12:32]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég er alls ekki sammála hv. þingmanni um að þjóðin muni á endanum greiða atkvæði um stjórnarskrána. Ferlið sem hv. meiri hluti Alþingis og hæstv. ríkisstjórn hafa teiknað upp er þannig að hér hefur komið fram tillaga frá stjórnlagaráði. Sú tillaga verður rædd í haust og vetur og gerðar á henni nauðsynlegar og væntanlega miklar breytingar. Rétt áður en þing verður rofið fyrir kosningar verður þessi tillaga lögð fram og samþykkt, gefum okkur það. Það er hugmynd hv. meiri hluta nefndarinnar og hæstv. ríkisstjórnar. Að því loknu gengur þjóðin til almennra þingkosninga en ekki kosninga um stjórnarskrána. Ég hugsa að hún muni ekki hafa neitt voðalega mikið vægi enda eru menn þá að kjósa stjórn yfir landið til næstu fjögurra ára, til næsta kjörtímabils. Stjórnarskráin hefur ekki það mikið vægi að menn láti hana hafa áhrif á sig varðandi það hverjir eigi að stýra landinu næstu fjögur árin. Að lokinni þeirri kosningu þar sem menn greiða atkvæði um nýja ríkisstjórn, nýtt flokkakerfi o.s.frv., hverjir eigi að fara með stjórn landsins, kemur nýtt þing saman og það nýja Alþingi mun samþykkja tillöguna, ef það samþykkir hana, og þá verðum við með stjórnarskipunarlög. Þjóðin kemur aldrei að því að greiða bindandi atkvæði um þessa stjórnarskrá, aldrei.

Þetta er stór galli við það ferli sem hér er í gangi. Þess vegna hef ég lagt til að hugmynd mín verði ein samþykkt sem breyting á stjórnarskránni. Síðan verða almennar kosningar og fyrsta verk nýs Alþingis verður að samþykkja þá breytingu. Þá getum við sent stjórnarskrána í bindandi atkvæðagreiðslu til þjóðarinnar og þá mun þjóðin greiða atkvæði um stjórnarskrána sína.