140. löggjafarþing — 102. fundur,  19. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[12:48]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson hefur það fram yfir mig að hann sat þjóðfundinn, ég var ekki í þúsund manna úrtakinu eins og hv. þingmaður, þannig að hann veit og þekkir umræður á þjóðfundinum betur. Það er rétt sem fram kom í máli hv. þingmanns að því hefur verið haldið fram að ástæður þess að þær spurningar sem teknar eru sérstaklega út af hálfu meiri hlutans, ástæðan fyrir því að þær eru þar, er sögð sú að þetta hafi verið niðurstaða þjóðfundarins.

Mér finnst það skjóta skökku við vegna þess að öll umræðan um stjórnarskrárbreytingar, um þær breytingar sem mest áríðandi er að gera, sem beinlínis liggur á, ef maður getur orðað það þannig — eða sumum finnst liggja á — lúta ekkert endilega að þessum spurningum hér. Hvernig hefur umræðan verið í aðdraganda forsetakosninganna? Umræðan hefur verið um stöðu forsetans, um hvernig forsetaembættið skyldi vera og hvort forsetinn eigi að hafa málskotsrétt, 26. gr. Um það er verið að ræða og það þyrfti að skýra.

Við þekkjum söguna. Í fyrri tíð þegar forsetinn hafði beitt þessu valdi einu sinni, árið 2004, voru fulltrúar þáverandi stjórnarandstöðuflokka, núverandi ríkisstjórnarflokka, algjörlega ófáanlegir til að ræða þetta. Það var gert að skilyrði fyrir öllum breytingum á stjórnarskrá að þetta ákvæði yrði látið vera.

Annað ákvæði sem er brýnt að ræða er varðandi fullveldisafsal og framsal til alþjóðastofnana. Ég og hv. þingmaður eigum bæði sæti í hv. utanríkismálanefnd og vitum að við erum með einstakt mál á okkar borði sem snýr að þessu. Þetta er ekki spurt um og mér þykir ákaflega ósennilegt að ekki hafi verið rætt um þetta á þjóðfundinum og ekki talin ástæða til að (Forseti hringir.) skýra það nánar.

Ég varpa þeirri spurningu, ef ég má, frú forseti, til hv. þingmanns í þessu andsvari hvort það hafi einmitt ekki (Forseti hringir.) verið rætt á þjóðfundinum.