140. löggjafarþing — 102. fundur,  19. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[12:50]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég man ekki til þess að þetta hafi verið rætt sérstaklega á þeim borðum sem ég tók þátt í á þjóðfundinum. Hins vegar má öllum vera ljóst að stjórnlagaráð ákvað að fjalla töluvert um framsal þjóðréttarlegs valds og ákvað að leggja til, í 67. gr., að rýmka til með þann möguleika að gera samninga, t.d. Icesave-samninga og eitthvað þess háttar — ég vona reyndar að ekki komi til þess að við þurfum að taka aðra sennu á slíku máli, en með þessi stjórnvöld eitt ár í viðbót, maður veit svo sem ekkert hvað getur gerst í því.

Stjórnlagaráð leggur hins vegar til að frelsi stjórnvalda verði aukið í því að gera slíka samninga með því að taka fyrir þann möguleika að hægt sé að setja þjóðréttarlegar skuldbindingar í þjóðaratkvæðagreiðslu, skattalegar skuldbindingar og ýmislegt annað. Stjórnlagaráð gerir ekki tilraun til þess að greina á milli — ég hef alla vega ekki séð það — hvers konar skattalegar skuldbindingar geti farið í þjóðaratkvæðagreiðslu og hverjar ekki. Það er hins vegar alveg augljóst að miðað við þær tillögur hefðu Icesave-samningarnir til dæmis ekki getað farið í afgreiðslu til þjóðarinnar.

Það verður að segjast eins og er að forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, mat það hárrétt þegar hann ákvað að senda þessa samninga í atkvæðagreiðslu til þjóðarinnar og undirstrikar þar með að nauðsynlegt er — það er mitt mat í það minnsta — að hafa varnagla hjá forsetanum til að bregðast við með þessum hætti. Auðvitað verður að nota það skynsamlega og ég held að í síðari tíma hafi forsetinn notað þetta ákvæði mjög skynsamlega.