140. löggjafarþing — 102. fundur,  19. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[13:30]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að fjalla efnislega um þær spurningar sem liggja fyrir. Mig langar að byrja á því að fara yfir hvað fyrsta spurningin þýðir í raun: Vilt þú að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá? Svarmöguleikarnir eru já og nei.

Gefum okkur að ég væri til að mynda sáttur við 70% af því sem fram kemur í tillögum stjórnlagaráðs en hefði efasemdir um hugsanlega 30%. Þá er dálítið sérkennilegt að þurfa að segja annaðhvort af eða á um hvort ég vilji hafa hlutina með þessum hætti. Það væri þá eðlilegra að senda bara tillögurnar í heild sinni og mundu þær þá gilda þegar búið væri að greiða atkvæði um þær. Þess vegna hefði verið eðlilegra að menn reyndu að afmarka verkefnið frekar og taka hugsanlega út það sem við vitum að þingið þarf að gera breytingar á í stjórnarskránni og leggja það svo til. Eðlilegra væri að notað það úr tillögum stjórnlagaráðs sem hugsanlega er samstaða og reyna þá að búa til afmarkaðri spurningar úr því sem eftir stendur sem tengist áherslumuninum á milli stjórnmálaaflanna á þinginu. Svo er auðvitað hægt að fara betur yfir tillögurnar og segja að ef munurinn er lítill sé hægt að leggja það til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá og þá þurfa menn auðvitað að fara yfir hvernig það verður gert. Ég efast ekki um að mismunandi túlkanir yrðu á niðurstöðunum þegar búið væri að kjósa um tillögur stjórnlagaráðs þannig að ég hefði talið heppilegra að þingið tæki tillögur stjórnlagaráðs til efnislegrar meðferðar, tæki til hliðar það sem menn væru þá sáttir við og létu það hugsanlega í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það mundi svo gefa skýrari leiðbeiningar frá þjóðinni sem þingið gæti farið eftir til að ljúka við grunninn að nýrri stjórnarskrá.

Síðan vil ég gera líka að umtalsefni fjórðu spurninguna sem kemur hér fram: Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um að atkvæði kjósenda alls staðar að af landinu vegi jafnt? Án þess að ég ætli að fara djúpt í umræðuna spyr ég hvort það ætti þá til dæmis að vera þarna með að allir landsmenn ættu að hafa jafnan rétt að grunnþjónustu, því að hvaða skoðun sem menn hafa á því máli held ég að það sé æskilegt að menn ræði það, það er mikilvægt að þeir átti sig á þessari hlið málsins. Mér sýnist æskilegast að gera landið að einu kjördæmi. Það getur vel verið að margir séu ósammála mér um það og það eru kostir og gallar við það að gera landið að einu kjördæmi. En þá finnst mér að við ættum að taka efnislega umræðu um það því að ef það verður niðurstaðan að þjóðin segir já við þessari spurningu þurfum við að svara því hvert eðlilegt framhald er af þeirri ákvörðun.

Mér finnst í raun algerlega útilokað annað en að landið verði gert að einu kjördæmi. Það hefur kosti og galla og auðvitað þurfum við að vega það og meta en það er mjög mikilvægt að við tökum umræðu um hvernig við sjáum þá framkvæmd útfærða, samþykki þjóðin það í þjóðaratkvæðagreiðslu eða svokallaðri skoðanakönnun. Það er ákveðinn misskilningur í gangi um að þjóðin ætli að fara að kjósa um tillögur stjórnlagaráðs án þess að þingið krukki eitthvað í þær. Það er þegar byrjað að krukka í þessar tillögur þannig að það er mjög mikilvægt að menn átti sig á því hvað það þýðir í raun. Þá þarf að taka þá umræðu og þegar farið verður að búa til spurningar til hliðar við tillögur stjórnlagaráðs æpa þær spurningar kannski meira á mann sem ekki eru þar en þær spurningar sem fyrir eru.