140. löggjafarþing — 102. fundur,  19. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[13:47]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vek athygli á því að þegar við fjöllum um þetta finnst mér að við ættum bara að segja um tillögur stjórnlagaráðs: Annaðhvort kýs fólk um þær allar eða engar. Við getum sagt sem svo að ég sé tiltölulega sáttur við 70% af tillögum stjórnlagaráðs en ég hafi hugsanlega efasemdir um eða setji frekari spurningar við 30% þeirra. Hvernig mundi ég virkja atkvæði mitt?

Við vitum svo hvernig ferlið er. Þegar slíkar spurningar eru settar upp mun alltaf verða pex um þær á þingi. Af hverju var frekar þessi spurning en ekki hin? Og menn fara að pexa um að það hefði verið eðlilegra að spyrja með þessum hætti en einhverjum öðrum. Þetta ferli finnst mér ekki vera nógu skýrt og ekki nógu gott.

Ég hefði talið eðlilegt að við tækjum tillögurnar til efnislegrar meðferðar og legðum til hliðar þær sem þingið væri sátt við, hvort það er 60%, 70%, 80% veit ég ekki, og sendum mikið markvissari spurningar til þjóðarinnar um það hvað við ættum síðan gera við restina. Ég tel það vera skynsömustu leiðina til að nýta þessa vinnu og þetta ferli, alveg sama hvaða skoðun við kunnum svo að hafa á því.

Það varð hins vegar niðurstaðan að fara þá leið að skipa stjórnlagaráð. Fyrst var farið út í að vinna með niðurstöður þjóðfundarins og síðan kom stjórnlagaráð með sínar tillögur. Voru þeir sem voru skipaðir — Hæstiréttur ógilti að vísu stjórnlagaþingskosninguna — ekki sama fólk og hlaut að langstærstum hluta kjörfylgi til að fara í þessa vinnu? Voru þá ekki fulltrúar þjóðarinnar að vinnu við breytingar á stjórnarskránni?

Ég er ansi hræddur um að þingið nái að klúðra þessu. Nú hefur því verið haldið að fólki og margir virðast misskilja það að greiða eigi atkvæði um stjórnarskrártillöguna í heild en það er bara sagt að hún verði lögð til grundvallar. Auðvitað vitum við sem höfum ekki starfað nema stuttan tíma hér hvernig hver og einn þingmaður mun túlka það. (Forseti hringir.) Það mun hver gera með sínu móti eins og margt annað.