140. löggjafarþing — 102. fundur,  19. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[13:51]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Auðvitað mætti túlka þetta eins og hv. þingmaður gerir og auðvitað þarf að gera alvarlegar athugasemdir við hvernig farið er með tillögur stjórnlagaráðs því að engin efnisleg umfjöllun hefur verið um þær í þinginu fyrr en á síðustu metrunum áður en ákveðinn tímafrestur rennur út. Við það staldrar maður.

Ég kom inn á virðinguna fyrir vinnu stjórnlagaráðs í ræðu minni. Hver var í rauninni hugsunin að fara í þessa vegferð? Hún var sú að þjóðin kysi sér fulltrúa sem væru ekki á þingi til að vera leiðbeinandi fyrir Alþingi um breytingar á stjórnarskránni og semja eins og í þessu tilfelli nýja stjórnarskrá.

Þá er spurningin hvernig menn höndla með þá vinnu sem hefur farið fram. Það á að vera miklu stærra mál en það er. Þegar farið er af stað í þessa vinnu — þó að við getum svo sem á hverjum tíma, hvert og eitt okkar, haft skoðun á því með hvaða hætti það er gert, en það var eigi að síður niðurstaða meiri hluta þingsins að fara í þessa vinnu — þá finnst mér, og ég segi það fullum fetum, skorta virðingu fyrir því fólki sem sat í stjórnlagaráði miðað við það hvernig þingið ætlar að fara með þá afurð sem það hefur í höndum. Þess vegna hef ég margsagt að eðlilegra væri, til að við næðum því út úr þessari vinnu sem við vildum fá, að setja þetta fram með miklu markvissari hætti í þjóðaratkvæðagreiðslu en gert er hér.

Mér finnst þetta ferli bjóða upp á að menn séu alltaf að deila um þær spurningar sem eru og þær sem eru ekki og þá munu menn — ég sé það einhvern veginn þannig fyrir mér, það er ekki víst að ég hafi rétt fyrir mér með það — sem koma á næsta þing segja: Þetta er með þeim hætti að ekki er hægt að taka mark á því. Við sjáum það í haust þegar við förum í efnislega umræðu. Þá hræðist ég dálítið það ferli sem við erum í núna. (Forseti hringir.) Ég held að það hefði verið hægt að gera miklu meira og bera meiri virðingu fyrir vinnu stjórnlagaráðs en gert er í því ferli sem málið er núna.