140. löggjafarþing — 102. fundur,  19. maí 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[14:01]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að eftir því sem við setjum fleira í stjórnarskrána þeim mun meira fer hún að líkjast almennum lögum. Ég bendi á að boðorðin 10 eru bara 10 og það er mjög auðvelt að muna þau. Þegar við erum hins vegar komin með 383 málsgreinar hættir þetta að vera sú Biblía sem fólk getur stutt sig við, einfalt, skýrt og með tiltölulega fáum atriðum. Ég tek því undir það með hv. þingmanni að það er stór spurning hvort minnast eigi á fjölmiðla í stjórnarskrá.

En það sem ég var að gera, herra forseti, var að taka þau ákvæði í þessum drögum að stjórnarskrá sem þjóðin á að fara að greiða atkvæði um — reyndar án nokkurs tilgangs — þar sem krafist er laga og gera á ákvæðum breytingu þannig að ekki verði krafist laga. Þar á meðal var þetta ákvæði um fjölmiðla þar sem stóð að frelsi þeirra skuli tryggt með lögum. Ég vil í staðinn segja að fjölmiðlar skuli vera frjálsir. Þá liggur það fyrir. Það er sú stefna sem ég vil að höfð sé að leiðarljósi í öllu þessu plaggi, að ekki þurfi lagasetningu nema alger nauðsyn krefji, eins og til dæmis að setja skuli lög um þingsköp Alþingis, ég fellst á að ekki verði hjá því komist.

Mér finnst að stjórnarskráin eigi að standa ein og óstudd og þurfi engan atbeina Alþingis, dómstóla eða ríkisvaldsins, framkvæmdarvaldsins. Stjórnarskráin er undirstaða þessara aðila, hún á að mínu mati að vera valin af þjóðinni og sett af þjóðinni en nú er það Alþingi sem setur hana.